Skip to main content

Útskriftarnemar frá Hvanneyri heimsóttu Austurland

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. jún 2012 22:37Uppfært 08. jan 2016 19:23

hvanneyringar_hringferd_0002_web.jpg

Útskriftarnemdar úr búvísindum og hestafræði Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri eyddu tveimur dögum á Austurlandi í útskriftarferð sinni hringinn í kringum landið fyrir skemmstu. Hópurinn heimsótti nokkra austfirska sveitabæi og skoðaði vinnubrögðin þar.

 

Hópurinn skoðaði Hjartarstaði í Eiðaþinghá, Egilsstaðabúið og Fjóshornið sem státar af heimavinnslu úr nautaafurðum, Egilsstaði í Fljótsdal og Vallanes þar sem Eymundur Magnússon stundar lífrænan búskap. Þá naut hópurinn leiðsagnar um Borgarfjörð eystri og sögustundar hjá Hirti Kjerúlf, bónda á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal.

Fjórir Austfirðingar luku háskólaprófi frá skólanum í ár: Herdís Magna Gunnarsdóttir frá Egilsstöðum á Völlum úr hestafræði og Egill Gunnarsson frá Egilsstöðum í Fljótsdal úr búvísindum en þau voru gestgjafar samnemenda sinna á heimabúum sínum. Egill var eini Austfirðingurinn sem tók þátt í hringferðinni.

Einnig útskrifuðust Perla Sigurðardóttir, frá Mælivöllum á Jökuldal úr umhverfisskipulagi og Þórveig Jóhannsdóttir frá Brekkugerði í Fljótsdal úr skógfræði.

Við útskrift frá skólanum var Egill verðlaunaður fyrir besta árangur á BS prófi við skólann á þessu skólaári og besta árangur á búsvísindabraut. Þórveig fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur á BS prófi á skógfræðilínu.