
Tveir Austfirðingar fastráðnir til Þjóðleikhússins
Katrín Halldóra Sigurðardóttir frá Norðfirði og Almar Blær Sigurjónsson frá Reyðarfirði hafa verið fastráðnir sem leikarar við Þjóðleikhúsið.Katrín Halldóra hefur undanfarin ár unnið í Borgarleikhúsinu en hún varð landskunn fyrir túlkun sína í sýningunni Ellý. Hún hefur stundað leik- og söngnám bæði hérlendis og í Danmörku. Í tilkynningu leikhússins segir að mikill fengur fyrir sé fyrir það að hafa „slíka leik- og söngkonu í sínum röðum.“
Á meðal verkefna hennar á næsta leikári verða meðal annars stórt hlutverk í söngleiknum Sem á himni sem Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstýrir en þar munu alls 25 leikarar taka þátt auk 12 manna hljómsveitar. Þá mun hún takast á við nýlegt verk eftir Caryl Churchill, Ást og upplýsingar, sem Una Þorleifsdóttir leikstýrir, í þýðingu Auðar Övu.
Almar Blær er að ljúka námi frá sviðslistabraut Listaháskóla Íslands en til tíðinda sætir að nýútskrifaðir leikarar fái fastráðningu. Hann mun einnig leika í Sem á himni.
Í frétt frá Þjóðleikhúsinu þakkar Almar Blær Spaugstofunni meðal annars fyrir að hafa fengið leiklistarbakteríuna snemma. Hann heillaðist af enska sjónvarpsmanninum David Attenborough og lagði það á sig átta ára gamall og með 39 stiga hita, að bíða í röð í þrjár klukkustundir eftir að geta hitt goðið þegar hann heimsótti Ísland.
„Ég byrjaði að leika strax í grunnskóla og hef ekki stoppað síðan. Ég var formaður leikfélagsins í Menntaskólanum á Egilstöðum öll árin mín þar; var virkur með áhugaleikfélögum á Austurlandi og notaði bara hvert tækifæri til þess að komast á svið. Ég lagði land undir fót árið 2017 og stundaði nám við dansleikhús hjá „Double Edge Theatre“ í Massachusetts í eina önn og í kjölfar þess ákvað ég að nú væri rétti tíminn til þess að reyna aftur að komast inn í Leiklistarskólann og það tókst í annarri tilraun,“ er haft eftir Almari Blæ.
„Ég man svo skýrt eftir því að hafa komið í Þjóðleikhúsið á sýningar sem barn. Mér leið alltaf eins og ég væri kominn í konungshöll um leið og ég steig inn í forsalinn. Og þegar tjöldin drógust frá þá var ég undantekningarlaust agndofa.“