Tveir Austfirðingar tilnefndir sem framúrskarandi ungir Íslendingar
Tveir Austfirðingar, Þórunn Ólafsdóttir frá Fáskrúðsfirði og Almar Blær Sigurjónsson frá Reyðarfirði, hafa hlotið tilnefningar til verðlaunanna Framúrskarandi ungir Íslendingar. JCI hreyfingin veitir verðlaunin.
Í tilkynningu segir að dómnefnd JCI hafi borist um hundrað tilnefningar en úr þeim eru valdir tíu einstaklingar.
Almar Blær er 21 árs gamall Reyðfirðingur. Hann hefur verið áberandi í austfirsku leiklistarlífi síðustu ár, farið með stór hlutverk í verkum leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum og leikstýrði í vor uppsetningu Leikfélags Fljótsdalshéraðs á verkinu Maður í mislitum sokkum.
Þá er hann einn af ungmennunum á bakvið leikfélagið Grímur sem starfaði eystra sumarið 2016. Almar hlýtur tilnefninguna fyrir störf eða afrek á sviði menningar.
Þórunn fær viðurkenningu fyrir störf á sviði mannúðar eða sjálfboðaliða en hún hefur verið einn helsti talsmaður málefna flóttamanna hérlendis undanfarin misseri. Þórunn var drifkrafturinn að stofnun samtakanna Akkeris og formaður þeirra. Samtökin hafa það markmið að nýta þekkingu og reynslu þeirra sem hafa starfað sem sjálfboðaliðar við að taka á móti fólki á flótta og efla áframhaldandi hjálparstarf.
Þórunn hefur meðal annars starfað í Grikklandi sem sjálfboðaliði við móttöku flóttamanna. Hún var valin Austfirðingur ársins 2016 af lesendum Austurfréttar.
Af öðrum sem tilnefndir eru í ár má nefna Aron Einar Gunnarsson, fyrirliða íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og Ævar Þór Benediktsson, betur þekktan sem Ævar vísindamann.
Forseti Íslands afhendir verðlaunin við athöfn í Háskólanum í Reykjavík á mánudag. Í fyrra hlaut þau Austfirðingurinn Tara Ösp Tjörvadóttir fyrir baráttu sína fyrir úrbótum í geðheilbrigðismálum.