![](/images/stories/news/2015/murmur.jpg)
Tvö austfirsk bönd í undanúrslitum Músiktilrauna
Tvær austfirskar hljómsveitir koma fram á fyrsta undanúrslitakvöldi Músiktilrauna í kvöld. Annars vegar um að ræða Logn skipuð af systkinum og MurMur sem spila hafa víða um Austurland síðustu vikur.
MurMur skipa þeir Ívar Andri Bjarnason frá Egilsstöðum, sem spilar á gítar og syngur, Bergsveinn Ás Hafliðason úr Fossárdal, sem trommar og Daði Þór Jóhannsson frá Fáskrúðsfirði sem spilar á bassa.
Hljómsveitin spilar fyrst og fremst blússkotið rokk í anda Led Zeppelin og fleiri banda sem voru mest áberandi fyrri hluta áttunda áratugarins.
Systkinin Øystein Magnús og Sunniva Lind Gjerde úr Fellabæ skipa Logn. Hann spilar á gítar en hún á hljómborð og svo syngja þau saman. Þau hafa bæði verið í tónlist síðan þau voru lítil en stutt er síðan þau ákváðu að koma fram sem hljómsveit.
Undankeppnin hefst í kvöld og teygir sig yfir næstu fjögur kvöld. Tólf bönd spila í kvöld og velur dómnefnd eitt áfram í úrslit og salurinn aðra. Hver hljómsveit spilar tvö frumsamin lög.
Úrslitakvöldið verður eftir viku. Alls taka 48 hljómsveitir þátt í ár. Einu sinni hefur austfirsk hljómsveit unnið keppnina. Það gerðu Dúkkulísurnar þegar keppnin var haldin í annað sinn, árið 1983.