Undir Klausturhæð: Sýning um miðaldaklaustrið að Skriðu
Á morgun verður opnuð í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri sýning um sögu klaustursins og rannsóknina sem staðið hefur yfir síðustu tíu ár og veitt margar nýjar upplýsingar um samfélag síðmiðalda.
Á sýningunni eru m.a. munir sem varðveittir eru á Þjóðminjasafninu en tengjast sögu klaustursins, s.s. Maríulíkneski, kaleikur og patína og nisti. Þá verður frumsýnt þar tölvugert þrívíddarlíkan af klausturbyggingunum eins og þær gætu hafa litið út á klausturtíma.
Í fyrrasumar lauk uppgreftri á minjum munkaklaustursins sem starfrækt var á Skriðuklaustri 1493-1554. Fornleifarannsóknin, sem stýrt er af dr. Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðingi, er ein af þeim stærri sem unnin hefur verið á Íslandi síðustu áratugina. Er þetta í fyrsta sinn hérlendis sem klaustur frá miðöldum er grafið upp í heild sinni og að auki voru um 300 grafir rannsakaðar.
Sýningin Undir Klausturhæð stendur í allt sumar á Skriðuklaustri. Frá 1. júní er opið alla daga kl. 10-18. Sýningin er samstarfsverkefni Skriðuklaustursrannsókna, Gunnarsstofnunar og Þjóðminjasafns Íslands.