Orkumálinn 2024

Ungmenna- og íþróttafélög styrkja Seyðfirðinga

Meistaraflokkur Ungmennafélagsins Einherja á Vopnafirði hélt bókauppboð og styrkir bæði Rauða krossinn og Björgunarsveitina Ísólf á Seyðisfirði. Bjartur Aðalbjörnsson segir marga hafa gefið sektarsjóðinn sinn. En Einherji hafi ekki átt neinn slíkan.

Ungmenna- og íþróttafélög um allt land hafa hugsað vel til Seyðfirðinga síðan aurskriður ollu gríðarlegu tjóni í bænum. Ungmennafélagið Einherji á Vopnafirði ætlar að gefa Björgunarsveitinni Ísólfi á Seyðisfirði og Rauða krossinum í bænum samtals 200.000 krónur. Þetta er andvirði af uppboði á bókinni, 64 Degrees North, sem er handbók á ensku um íslenska knattspyrnu.

Höfundur bókarinnar er Skotinn Marc Boal, sem hefur fylgst með íslenskri knattspyrnu frá miðjum níunda áratug síðustu aldar eða frá því hann spilaði á sínum yngri árum gegn íslenskum liðum sem komu yfir til Skotlands að spila. Bókin er sú fyrsta sem komið hefur út á ensku um íslenska knattspyrnu, landsliðið, deildarliðin, ágrip af sögu íslenskrar knattspyrnu og velli víða um land.

„Boal hafði samband við mig föstudaginn sem skriðurnar féllu, gaf okkur fimm árituð eintök af bókinni og vildi að andvirðið myndi renna til Seyðfirðinga. Hann vonaði að við myndum selja eintökin á kostnaðarvirði og við gætum gefið 15.000 krónur til Seyðfirðinga.

En við höfðum uppboð á bókinni og auðvitað vildu menn eignast hana þegar markmiðið var að styrkja gott málefni,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, fyrirliði meistaraflokks Einherja á Vopnafirði og tengiliður bókahöfundarins í frétt á vef Ungmennafélags Íslands.

Óhefðbundið uppboð

Bjartur skelli í færslu á Facebook-síðu Einherja þar sem uppboðinu og reglum þess var lýst. Þar sagði að uppboðið stæði yfir helgina og lyki því á sunnudagskvöld klukkan 10. Hægt var að bjóða í bækurnar í athugasemdum á Facebook, með því að svara færslum á Twitter eða hafa samband við Bjart.

Boltinn rúllaði hratt og þegar á hólminn var komið var barist um eintökin fimm. Maður sem vildi ekki láta nafn síns getið bauð 100.000 krónur í eintak, annar keypti bók á 50.000 krónur. Ein fór á 20.000 krónur og tvær á 15.000 hvor.

„Þetta gerðist allt mjög hratt. Ég sá að Íþróttafélagið Huginn hafði deilt reikningsnúmeri Rauða krossins og Björgunarsveitarinnar og ákvað að flækja þetta ekki neitt heldur deila upphæð uppboðsins á milli þeirra beggja,“ segir Bjartur.

Bækurnar koma svo úr prentun 8. janúar 2021 og verða þær afhentar eins fljótt og hægt er.

Hugur allra hjá Seyðfirðingum

Með gjöfinni bætist Ungmennafélagið Einherji í hóp fjölda ungmenna- og íþróttafélaga sem hafa styrkt Seyðfirðinga með ýmsu móti síðan hörmungarnar dundu yfir. Meistaraflokkar í knattspyrnu hafa gefið sektarsjóði sína. Leiknir á Fáskrúðsfirði reið á vaðið og sagði frá því á Twitter. Dalvík/Reynir fylgdi á eftir og svo koll af kolli.

Bjartur segir Einherja ekki hafa átt neinn sektarsjóð og því hafi bókagjöfin komið sér afar vel ekki síður en undirtektirnar við uppboðinu. „Svona er maðurinn oft góður,“ segir hann að lokum.

Mark Boal þakkaði í færslu á Facebook Bjarti og Einherja fyrir snögg viðbrögð og sendir félagsmönnum íþróttafélagsins Hugins á Seyðisfirði kveðju. Hann sé í skýjunum yfir góðum viðbrögðum við uppboðinu og vonast til að heimsækja Austfirðinga þegar lífið kemst í fastar skorður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.