„Upplifir alltaf eitthvað nýtt á Austurlandi“

Fyrsti þátturinn í að „Uppskrift að góðum degi á Austurlandi“ verður sýndur á sjónvarpsstöðinni N4 í kvöld. Þáttastjórnandi segir að alltaf megi upplifa eitthvað nýtt eystra.

„Við skoðum náttúruperlur, förum í afþreyingu, smökkum mat og dveljum á gististöðum.

Þættirnir eru hugsaðir sem tillaga að því sem hægt er að gera skemmtilegt á einum degi á ákveðnu landssvæði. Þeir eru samt engan vegin tæmandi því við getum því miður ekki stoppað alls staðar,“ segir Rakel Hinriksdóttir, annar stjórnandi þáttanna.

Fyrsti þátturinn fer í loftið klukkan 20:00 í kvöld en þeir verða alls fimm talsins. Þeir byggja á ferðaleiðum sem skilgreindar hafa verið í markaðssetningu Austurlands. Fyrsti þátturinn kallast „Við ysta haf“ en þaðan er farið frá Möðrudal niður í Vopnafjörð, yfir Hellisheiði áður en endað er á Borgarfirði. Fyrstu fjórir þættirnir verða sýndir í júní og júlí en sá síðasti, sem tileinkaður er hálendinu, í ágúst.

Rakel stýrir þáttunum ásamt Skúla Braga Geirdal, en þau hafa skipst á að gera þættina Að austan á N4. „Við þekkjum svæðið orðið nokkuð en maður upplifir alltaf eitthvað nýtt. Okkur þykir orðið vænt um Austurland og það er gaman að fá tækifærið til að gera þessa þætti sem eru aðeins öðruvísi en Að austan. Tökuferðin var mjög skemmtileg þar sem við vorum bara tvö og tveir tökumenn.

Rakel hefur sérstakan áhuga á fossum og fékk nóg af þeim eystra. „Ég náði loks að sjá Gljúfurárfoss í Vopnafirði. Við höfum ekki farið Hellisheiðina þegar við erum í tökuverðum.

Mér finnst Hengifoss alltaf skemmtilegur, ég hafði komið að honum áður en gönguleiðin er svo geggjuð. Annars er víða hægt að sjá flotta fossa, þá stoppar maður bílinn og hendist út. Fossinn í gljúfrinu við Hrútá, þar sem ekið er inn í Fáskrúðsfjarðargöngin frá Reyðarfirði, er dæmi um þessa fossa sem birtast allt í einu.

Það sem kom mér mest á óvart í ferðinni var Steinasafnið á Stöðvarfirði, bæði hvað það var stórt og fallega uppsett. Síðan var maturinn geggjaður, við fengum alls staðar góðan og frumlegan mat.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.