![](/images/stories/news/2016/Þórunn_Guðgeirsdóttir.jpg)
„Úti er gott en heima er best“
Þórunn Guðgeirsdóttir frá Egilsstöðum er nýkomin heim úr þriggja mánaða skiptinámi í kennarafræðum frá Kennaraháskólanum í Árósum á Jótlandi, reynslunni ríkari.
Þórunn er fótaaðgerðafræðingur og hefur rekið fótaaðgerðastofuna Fótatak á Egilsstöðum frá árinu 2003. Þórunn er gift Einari Ólafssyni og saman eiga þau börnin Hólmfríði, Guðgeir og Eystein.
Hvað kom til að Þórunn vatt sínu kvæði í kross, fór í kennaranám og tók hluta af því erlendis?
„Við bjuggum í Danmörku í sex ár þar sem ég lærði fótaaðgerðafræðina. Við komum heim árið 2003 og ég opnaði stofuna. Eftir efnahagshrunið 2008 varð minna að gera á stofunni. Ég sá auglýsta stöðu stuðningsfulltrúa við Egilsstaðaskóla og ákvað ég að sækja um það starf, var ráðin og vann þar í eitt og hálft ár. Þar kviknaði áhugi hjá mér á að fara í kennaranám sem nú tekur fimm ár. Ég hóf nám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands haustið 2011 og stefni á útskrift í vor ef allt gengur að óskum. Ég hef tekið háskólanámið í fjarnámi samhliða því að reka fótaaðgerðastofuna og hefur það verið strembið á köflum og langar mig að nota tækifærið og þakka viðskiptavinum mínum fyrir þolinmæði og skilning á aðstæðum þegar opnunartími stofunnar hefur verið óreglulegur á námstímanum,“ segir Þórunn.
Þórunn segir aðdraganda þess að hún fór í skiptinám hafa staðið allt frá því hún hóf háskólanámið.
„Skiptinámið er kynnt reglulega fyrir nemendum og fannst mér spennandi möguleiki að eiga kost á að taka eina önn í erlendum háskóla. Danmörk kom strax sterk inn þar sem við höfðum búið þar og ekki síður fyrir þær sakir að dóttir okkar var búsett í Danmörku og sá ég möguleika á að vera nær henni um tíma. Ég reyndi að sannfæra karlana mína um að þetta væri góð hugmynd en eðlilega, þar sem allir eru í vinnu og skóla, hefði það verið mikið rask fyrir fjölskylduna að taka sig upp og flytja í annað land og voru þeir ekki alveg tilbúnir að hoppa á það. Ég áttaði mig svo á því að þar sem drengirnir okkar voru orðnir þetta stórir gæti ég bara farið ein í þetta ævintýri. Þannig að ég sótti um að komast í skiptinám við Kennaraháskólann í Árósum á Jótlandi og fékk þar inni. Ég velti því nú aðeins fyrir mér þegar ég var búin að sækja um hvað ég myndi gera ef ég fengi jákvætt svar en vissi jafnframt að ég gæti ekki látið það framhjá mér fara. Ég er auk þess svo ótrúlega heppin að maðurinn minn styður mig í flest öllu sem mér dettur í hug að gera og hvetur mig frekar en hitt.“
Góð upplifun þrátt fyrir smávægilega byrjunarörðugleika
Þórunn fór út í lok janúar. „Það var eins og það væri smá sandur eða ryk í augunum á mér í flugvélinni á leiðinni suður. Ég flaug út sama dag þar sem Hólmfríður dóttir mín tók á móti mér í Kaupmannahöfn. Svo skemmtilega vildi til að hún var að útskrifast úr sínu námi í markaðs- og samskiptahönnun daginn eftir og gat ég því verið viðstödd þegar hún tók við prófskírteininu og fagnað því með henni.“
Þórunn segir upplifun sína af skiptináminu hafa verið nokkuð góða þrátt fyrir smávægilega byrjunarörðugleika. „Nokkurn tíma tók að finna út hvaða námskeið ég gæti tekið við kennaraháskólann í Árósum en það leystist farsællega að lokum. Auk þess var ég að vinna lokaverkefni mitt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem fjallar um dyslexíu, leshömlun í tungumálanámi.
Ég var í stúdíóíbúð á háskólagörðum í Árósum sem var með nauðsynlegum húsgögnum og húsbúnaði. Þar var ljómandi fínt að vera en vissulega viðbrigði að hafa ekki öll þau þægindi sem maður á að venjast. Á tímum nútímatækni var til dæmis hálf fyndið að ekki var Wi-fi í íbúðinni heldur þurfti ég að tengjast netinu í gegnum netsnúru í veggnum og hægindastóllinn var lúinn skrifstofustóll.
Við eigum tvenn vinahjón í Horsens sem er í um 30 kílómetra fjarlægð frá Árósum og reyndust þau mér ómetanlegur stuðningur í þessari ævintýraferð minni. Auk þess sem ég náði að hitta dóttur okkar í Kaupmannahöfn nokkrum sinnum á þessum tíma sem var ljúft. Hún er svo reyndar flutt til Reykjavíkur þar sem hún fékk vinnu á auglýsingastofu og erum við mjög glöð að fá hana heim.“
Sökkti sér í meistararitgerðaskrif
Þórunn segir það á köflum hafa verið erfiðara en hún hélt að vera ein og fjarri fjölskyldunni þessa þrjá mánuði.
„Á vissan hátt naut ég þess þó og þetta verður eftirminnilegur tími á sama tíma og ég saknaði þeirra mikið. Einn af kostunum fannst mér að vera ekki að vinna með náminu. Einnig var þægilegt þegar ég var sem mest að skrifa meistararitgerðina að þurfa ekki að hugsa um neitt annað og ekki að taka tillit til annarra. Þannig gat ég sökkt mér í skrifin og var fátt sem truflaði. Einnig var mikill kostur að hafa gott aðgengi að bókasafni og var bæði einfaldara og fljótlegra að verða sér úti um heimildir heldur en verið hefði hér heima.“
Þórunn er nýlega komin til baka frá Danmörku. „Það var alveg yndislegt að koma heim og hitta fjölskyldu og vini. Ég er að vinna í lokaritgerðinni og eru lokaskil í byrjun maí. Þegar því lýkur er ég búin að lofa mér í afleysingakennslu í Egilsstaðaskóla út skólaárið auk þess sem ég mun vera með fótaaðgerðastofuna opna í sumar. Hvað ég fer að gera í haust er ennþá ekki alveg frágengið en ég vonast til að fá vinnu við kennslu og þá helst dönskukennslu sem ég hef lagt mesta áherslu á í námi mínu. Fyrir þá sem eru í háskólanámi og velta fyrir sér að fara í skiptinám mæli ég hiklaust með því. Maður verður alltaf reynslunni ríkari. Gott er þó að hafa í huga að grasið er ekki endilega grænna hinum megin og úti er gott en heima er best.“