![](/images/stories/news/2016/utsvar_sigurlid_fherad_0015_web.jpg)
Útsvarsliðið styrkti geðræktarstarf: Gott fyrir íbúana að sameinast að baki liðinu
Sigurlið Fljótsdalshéraðs í Útsvari gaf sigurféð til geðræktar í heimabyggð. Sigurgripurinn, Ómarsbjallan, var afhent sveitarfélaginu formlega til varðveislu í upphafi bæjarstjórnarfundar á miðvikudag þar sem liðið var heilsað.
RÚV gefur sigurliðinu 200.000 krónur til að ráðstafa í þágu góðgerðarmálefnis í heimabyggð. Útsvarsliðið ákvað að láta féð renna til mann- og geðræktarstöðvarinnar Ásheima þar sem peningurinn er sérstaklega eyrnamerktur í forvarnastarf fyrri ungt fólk sem glímir við geðrænan vanda.
Ómarsbjallan verður í umsjá sveitarfélagsins næsta árið. Til stendur að búa henni stað í afgreiðslu bæjarskrifstofanna í sumar en næsta vetur er fyrirhugað að hún flakki á milli skóla. „Þar til henni verður hugsanlega skilað,“ eins og bæjarstjórinn Björn Ingimarsson komst að orði.
Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar, færði liðinu þakkir fyrir sigurinn. „Þið hafið glatt hjörtu okkar síðustu mánuði og við erum af fáu stoltari en ykkar framgöngu.
Menn eru óskaplega lukkulegir með ykkur, ekki bara hvað þið eruð vitur heldur hvað þið eruð skemmtileg. Það hefur ekki spilað minnst inn í ykkar vinsældir.
Við erum ykkur þakklát fyrir þann tíma sem þið hafið nýtt í þágu sveitarfélagins. Það skiptir máli fyrir íbúa að eiga sitt lið til að geta sameinast um og verið stoltir af fyrir utan að þetta hefur skapað mikla og jákvæða umfjöllun. Liðið er gott þversnið af íbúum sveitarfélagsins.“
Liðið skipuðu þau Björg Björnsdóttir, Þorsteinn Bergsson og Hrólfur Eyjólfsson.