VA tapaði fyrir Borgarholtsskóla í Gettu betur
Verkmenntaskóli Austurlands er úr leik í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, eftir 25-9 tap fyrir Borgarholtsskóla í annarri umferð keppninnar í gærkvöldi.
Strax var ljóst hvert stefndi eftir hraðaspurningarnar þar sem Borgarholtsskólaliðið stóð sig frábærlega og náði átján stigum gegn sjö stigum VA.
Lið VA skipuðu að þessu sinni Guðjón Björn Guðbjartsson, Katrín Hulda Gunnarsdóttir og Smári Björn Gunnarsson. Þjálfari liðsins var Ingibjörg Þórðardóttir, íslenskukennari.
VA tók ekki þátt í fyrstu umferðinni þar sem andstæðingur þess, starfsmenntabraut Landsbúnaðarháskólans á Hvanneyri, dró sig úr leik. Sigurvegarar í annarri umferð keppninnar komast í átta liða úrslit sem fram fara í Sjónvarpinu.
Umferðinni lýkur á mánudagskvöld. Menntaskólinn á Egilsstöðum mætir þá Verzlunarskóla Íslands.