Skip to main content

„Veðurteppt“ heima í júlí

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. júl 2017 14:40Uppfært 18. júl 2017 14:40

Austfirðingar hafa notið þess að hafa besta veðrið á landinu síðustu vikur og sýnt á sér lítið fararsnið. Fleiri og fleiri gestir eru farnir að sjást á tjaldsvæðum fjórðungsins.


„Við ætluðum að ferðast um landið í sumar en höfum eiginlega verið „veðurteppt“ á Egilstöðum í júlí. Við höfum ferðast um í nærumhverfinu og farið í fjallgöngur, veiði og leigt okkur hesta,“ segir Heiður Vigfúsdóttir, eigandi Austurfarar sem meðal annars rekur tjaldsvæðið á Egilsstöðum.

Heiður segir að hún og maður hennar hafi ætlað með syni sína þrjá í útilegu í sumar. Þau enduðu hins vegar á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum. „Við hjóluðum þangað og höfðum með okkur nesti,“ segir Heiður og hlær.

Sömu sögu er hins vegar ekki að segja úr öðrum landshlutum og hefur vætutíð í Reykjavík ekki farið framhjá öðrum landsmönnum. Heiður segir að þrátt fyrir að umræðan um vosbúðina á suðvesturhorninu og veðurfréttir jafnvel villandi hafi verið áberandi séu alltaf fleiri og fleiri sem feti sig austur í sólina.

„Við finnum að það fjölgar á tjaldsvæðinu. Þrátt fyrir rigningarumræðuna þá eru alltaf fleiri og fleiri sem átta sig á hvar sólina er að finna.“

Heiður segist einnig verða vör við umræðu í bænum um að hitatölurnar frá Egilsstöðum gefi ekki alltaf rétta mynd. „Veðurstöðin er á flugvellinum í kulda frá fljótinu og berskjölduð fyrir vindinum. Gróður skýlir hins vegar bænum.“

Útlit er fyrir áframhaldandi blíðu og spáð er 15-20 stiga hita eins langt og spá Veðurstofu Íslands nær fyrir svæðið.