„Verðlaunin skipta öllu máli“

Margir eiga erfitt með að koma sér af stað eftir jólin sem voru einnig óvanalega stutt í ár. Erla Björnsdóttir sálfræðingur frá Norðfirði og höfundur dagbókarinnar Munum lumar á góðum ráðum til þess að hámarka árangur árið 2017.



„Í amstri dagsins getur verið erfitt að finna jafnvægi milli fjölskyldu, vinnu, félagslífs og heilsu- og sjálfsræktar og því afar mikilvægt að skipuleggja tíma sinn vel og setja sér skýr markmið,“ segir Erla og bætir því við að rannsóknir sýni að einungis um 15-20% fólks setji sér hnitmiðuð markmið til lengri og skemmri tíma.

„Það er sorgleg staðreynd þar sem skýr markmið geta stórlega aukið árangur og greitt leiðina að betra lífi. Það er sjaldnast tilviljun að þeir sem ná langt eða eru framar öðrum á sínu sviði hafi náð þangað. Oftast liggur að baki löng og mikil vinna sem hefst nær undantekningarlaust með einhvers konar markmiðasetningu. Það er þó alls ekki sama með hvaða hætti markmiðasetning er gerð og í raun er talið að yfir 75% markmiða renni í sandinn.“


Yfirfer vikumarkmiðin hvern sunnudag

En er þetta ekki alltaf sama sagan; við byrjum af krafti í janúar, setjum okkur háleit markmið, en erum búin að gleyma öllu saman um miðjan febrúar?

„Til þess að forðast það að gefast upp í lok janúar er einmitt mjög mikilvægt að markmiðin séu raunhæf og verðlaunin skipta mjög miklu máli! Sjálf set ég mér mörg stór markmið sem ég skipti svo niður í smærri skref og ég er með ákveðna gulrót þegar ég hef náð hverju skrefi fyrir sig, en mér finnst það gangast mun betur heldur en að verðlauna mig eingöngu þegar loka markmiðinu er náð. Ég set mér markmið fyrir árið, mánuðinn og vikuna og fer svo mjög reglulega yfir þau, til dæmis sest ég niður alla sunnudaga og fer yfir marmið liðinnar viku, sé hvað náðist og reyni að átta mig á hvers vegna sumt náðist ekki. Með því sé ég hvað ég get gert betur svo geri ég það sama varðandi mánaðar og ársmarkmiðin,“ segir Erla.


Annað árið sem Munum dagbókin kemur út

Eins og Austurfrétt sagði frá fyrir jól var Erla að gefa út sína aðra dagbók undir nafninu MUNUM í samvinnu við Þóru Hrund Guðbrandsdóttur markaðsfræðingi sem er hönnuð með það að leiðarljósi að auðvelda markmiðasetningu, tímastjórnun, auka yfirsýn, efla jákvæða hugsun og ekki síður hvetja til framkvæmda. Í því hraða umhverfi sem við lifum í er mikilvægt að vera skipulagður, fá sem mest út úr hverjum degi og umfram allt að muna að njóta líðandi stundar. Hér má lesa viðtalið við Erlu vegna útkomu bókarinnar.



Erla vill hvetja fólk til þess að setja sér markmið á nýju ári og við þá vinnu er gott að hafa þessi lykilatriði til hliðsjónar;

Munum að hafa markmiðið krefjandi en raunsætt

Mikilvægt er að velja sér markmið sem er krefjandi en jafnframt raunhæft. Til dæmis er ekki sniðugt að ákveða að hlaupa maraþon eftir mánuð ef þú hefur aldrei hlaupið meira en 5 kílómetra.



Munum að hafa markmiðið sértækt

Forðast skal að hafa markmið of almenn, t.d. er markmiðið “ég ætla að verða betri manneskja” mjög almennt og erfitt er að mæla árangur í að nálgast markmiðið. Betra er að ákveða að hvaða leyti þú villt bæta þig, t.d. “ég ætla að hafa meira samband við vini mína”. Hér er markmiðið orðið aðeins mælanlegra en þó er enn hægt að gera það skilvirkara.



Munum að hafa markmiðið mælanlegt

Sem dæmi er markmiðið ,,ég ætla að hitta vini mína a.m.k. tvisvar í viku” mun sértækara og vænlegra til árangurs. Þegar markmið eru vel skilgreind og auðvelt er að mæla árangur þeirra er mun líklegra að við fylgjum þeim eftir.



Munum að búta markmiðið niður

Ef markmiðið er stórt, getur verið gott að skipta því niður í nokkra litla hluta sem eru viðráðanlegri. Með þessu móti er mun líklegra að þú gefist ekki upp. Ekki hugsa of mikið um lokamarkmiðið, einbeittu þér frekar að einum hluta í einu. Settu upp aðgerðaáætlun að markmiðunum og fylgdu henni. Því nákvæmari sem áætlunin er, því betra.



Munum að hafa markmiðið innan ákveðins tímaramma

Mikilvægt er að ákveða hvenær þú ætlar að ná markmiðinu og setja þér tímaáætlun. Gott er að setja sér bæði skammtíma- og langtímamarkmið.



Munum myndrænu framsetninguna

Finndu/búðu til mynd af markmiðinu þínu og hafðu myndina sýnilega. Það er ótrúlega skemmtilegt að búa til myndir af draumum sínum, þannig lifna þeir við og við þráum þá enn heitar! Skrifaðu markmiðið niður, rannsóknir hafa sýnt að þá er mun líklegra að þú fylgjir því eftir.



Munum að deila markmiðinu með öðrum

Ef þú segir öðrum frá markmiðum þínum er mun líklegra að þú náir þeim. Það er oft auðveldara að svíkja sjálfan sig en þegar maður hefur sagt öðrum frá getur það sett á mann auka pressu.



Munum að verðlauna okkur þegar vel gengur

Ekki gleyma að verðlauna þig þegar þú hefur náð settum markmiðum. Ákveddu fyrirfram með hvaða hætti þú ætlar að verðlauna þig. Umfram allt er mikilvægt að hafa þetta skemmtilegt, ekki setja þér markmið sem eru þér mikil kvöð.



Munum að skrá markmiðin niður á hnitmiðaðan hátt

Skráning eykur stórlega líkur á árangri. Við það eitt að setja sér markmið má margfalda líkur á árangri, ef markmiðin eru einnig skrifuð niður aukast líkur á árangri um rúm 40% til viðbótar. Með því að skilgreina markmiðin vel, skipta þeim niður í minni skref og hafa á þeim fastan tímaramma aukast líkur á árangri svo enn frekar. Á þennan hátt má hugsa Munum dagbókina sem verkfæri fyrir fólk til að skilgreina og fylgja eftir markmiðum sínum á einfaldan og skilvirkan hátt og auka þannig líkur árangri.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.