Við verðum annað hvort að elska hvert annað eða deyja
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. apr 2013 18:58 • Uppfært 08. jan 2016 19:24
Austurfrétt og Austurbrú í samvinnu við SÚN, standa fyrir fyrirlestri um auglýsingar stjórnmálahreyfingar í starfsstöð Austurbrúar í Neskaupstað á miðvikudagskvöld. Yfirskriftin er „Við verðum annað hvort að elska hvert annað eða deyja“ sem er tilvitnun í fræga bandaríska stjórnmálaauglýsingu frá sjöunda áratug aldarinnar sem leið.
Fyrirlesarinn er Gunnar Gunnarsson, stjórnmálafræðingur og ritstjóri Austurfréttar. Á kvöldvökunni rýnir Gunnar í auglýsingar stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna, jafnt íslenskar sem erlendar, greinir þær á gagnrýninn hátt og veltir fyrir sér hvaða skilaboðum þeim er ætlað að miðla.
„Auglýsingar snúast almennt um að skapa ímynd og selja vöru,“ segir Gunnar. „Það á líka við um stjórnmálaauglýsingarnar sem jafnframt er stundum ætlað að sverta ákveðinn andstæðing og grafa undan trúverðugleika hans.“
Aðspurður um auglýsingar stjórnmálaflokkanna á Íslandi í aðdraganda kosninga segir Gunnar að flestir leggi áherslu á skuldavandann og honum finnst áberandi að minna er um dagblaðaauglýsingar en áður og meira um netauglýsingar.
Hann segir stjórnmálaauglýsingar almennt hafa breyst á síðustu árum og áratugum. „Þær eru styttri, snarpari en með flóknari skilaboðum á sama tíma,“ segir hann. „Neikvæðu auglýsingarnar hafa einnig aukist þótt sú þróun sé ekki áberandi á Íslandi.“
Erindið verður í Kreml í Neskaupstað miðvikudaginn 17. apríl og hefst klukkan 20:00.