![](/images/stories/news/2016/Vinir_geisladiskur.jpg)
„Við erum að svara minningum úr æskunni“
Út er komin ný austfirsk geislaplata eftir þá Steinar Gunnarsson og Bjarna Tryggvason og heitir hún einfaldlega Vinir.
Steinar er einna þekktastur fyrir að vera bassaleikari, söngvari og lagasmiður sveitarinnar SúEllen en Bjarni hefur gefið út fjórar sólóplötur og starfað sem trúbador um alla Evrópu.
„Okkar samstarf hefur staðið hátt í 30 ár með lengri og skemmri hléum. Við höfum alltaf verið miklir og nánir vinir og sú vinátta hefur haldið þótt leiðir hafi skilið á tímum. Við fórum í ólíkar áttir í lífinu, höfum báðir reynt margt og gengið í gegnum flóknar áskoranir en stöndum enn í fæturna og vináttan heldur. Þessar ólíku leiðir gefa tónlistinni okkar hugsanlega meiri breidd og þroska fyrir vikið,“ segir Steinar.
Steinar segir hugmyndina hafa kviknað heima við eldhúsborðið.
„Einhvern tímann sátum við vinirnir saman og vorum að ræða um tónlist og textagerð út frá ýmsum hliðum og meðal annars leiddi umræðan að gamalli íslenskri dægurlagatónlist og ekki var laust við að örlaði á smá gorgeir í okkur. Kolbrún, konan mín, sem hafði hlustað með öðru eyranu, spurði hvað við værum að rausa, af hverju við girtum okkur ekki í brók og gerðum svona lög og texta í stað þess að sitja bara heima.“
Það varð úr, vinirnir settust niður og lögin komu eins og af færibandi. Steinar segir tónlistina á disknum ekki vera dæmigerða fyrir það sem þeir hafa fengist við gegnum árin.
„Við höldum talsvert aftur í tímann og erum að svara minningum okkar úr æskunni en þessi tegund tónlistar fylgir foreldrum okkar, ömmum og öfum. Hljómurinn frá harmonikkunni, danstónlist, valsar, skottísar og tangó. Tónlistin sem hljómaði á „gömlu gufunni“ og ömmur okkar sungu með og stigu dans í eldhúsinu. Síðasta lag fyrir fréttir og allt það. Lögin eru uppfull af minningum og tilfinningum en með þeim ferðumst við aftur til þessara ára sem voru bæði góð og eins erfið en mótuðu okkur til lífstíðar. Þemað í þeim flestum er bærinn okkar, bæjarbúar, bæði látnir og lifandi, æskuminningar, stemming, gamlar sögur og persónulegt uppgjör við sorgir, söknuð og lífið í gamni og alvöru.“
Stefna á tónleikahald í haust
Steinar og Bjarni fengu góða hjálp við diskinn. „Við erum svo lánsamir að hafa starfað með mörgum frábærum tónlistarmönnum í gegnum árin og nutum við góðs af þeim tengslum á þessum diski. „SúEllenfjölskyldan“ stóð að sjálfsögðu sína plikt eins og við var að búast, sem og Rögnvaldur Valbergsson sem hellti sér í verkefnið og komst því aftur á skrið eftir langa pásu.“
Steinar segir viðtökurnar hafa verið vonum framar. „Við erum endalaust þakklátir en við renndum algerlega blint í sjóinn og ef við náum eitthvað upp í kostnað erum við meira en lítið sáttir. Það er ekki auðvelt að selja geisladiska þessi misserin og flestir tónlistarmenn barma sér vegna lélegrar sölu. Við erum ekki með háleita drauma um metsölu eða gróða heldur vildum við koma þessu frá okkur í þeirri von að þetta hreyfði við tilfinningum hjá einhverjum, sem virðist hafa heppnast.
Við erum alvarlega farnir að íhuga hvort við verðum ekki að halda nokkra tónleika vinirnir og sýna þar með viðtökunum við disknum þá virðingu sem ber. Það verður þá vonandi með haustinu ef allt gengur upp.“
Hér er Facebooksíða disksins.
LJósmynd: Daníel Starrason