![](/images/stories/news/folk/Pétur_Ármannsson.jpg)
„Við tókum með okkur austfirsku einlægnina og gleðina“
„Ég held að galdurinn með svona persónulegt efni sé að vinna hlutina út frá hjartanu og mallanum, þessari „gut feeling“ eða innsæi. Mér finnst einnig gott að stutt sé í húmorinn í minni list, til þess að fanga áhorfandann og fá hann til þess að hlæja, það er svo mannlegt og um leið tengir fólk við dramatískari hluti,“ segir Pétur Ármannsson, leikstjóri einleiksins Hún pabbi í Borgarleikhúsinu.
Einleikurinn Hún pabbi var frumsýndur í Borgarleikhúsinu í byrjun janúar og hefur hlotið feikna góða dóma. Bæði leikstjóri sýningarinnar og leikari eiga ættir sínar að rekja á Austurlandið, leikarinn Hannes Óli Ágústsson á Borgarfjörð eystri og leikstjórinn Pétur Ármannsson á Stöðvarfjörð auk þess sem hann ólst upp á Héraði.
Verkið er eftir Köru Hergils og Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur í samstarfi við sviðslistahópinn TRIGGER WARNING og Borgarleikhúsið. Verkið er í flutningi Hannesar Óla en sýningin er um föður hans.
Í lýsingu verksins segir að Hannes Óli hafi haldið að hann ætti bara „venjulegan pabba“ en faðir hans var andlega fjarlægur í uppeldi hans. Ástæða þess átti rætur að rekja til leyndarmáls sem var vandlega falið og dag einn breyttist allt. Karlinn sem ól hann upp lét sig hverfa og fram steig Anna Margrét Grétarsdóttir, þá 57 ára gömul. Hún tilkynnti eiginkonu sinni til 30 ára og börnum þeirra tveimur að hún væri í raun ekki sá sem þau hefðu haldið öll þessi ár.
„Galdurinn að vinna út frá hjartanu og mallanum“
„Kara, listrænn stjórnandi sýningarinnar, hafði samband við mig og bað mig um að leikstýra sýningunni en hún hafði séð verk af svipuðum toga sem ég hafði unnið þar sem ég vinn með persónulegar frásagnir á sviði,“ segir Pétur.
Pétur segir að sýningin hafi fengið mjög góðar viðtökur. „Það er gaman að sjá hversu mikinn áhuga áhorfendur hafa á sýningunni og málefninu. Þetta er dálítið ótrúleg saga sem fólk tengir við – að þora að vera það sjálft.
Sýningin krefst mikils hugrekkis af Hannesi Óla
„Hannes Óli er virkilega fær leikari og frábær manneskja og það skín svo vel í gegn í þessari sýningu en hann er fremur berstrípaður á sviðinu. Þetta er mjög persónuleg saga fyrir hann og við nálguðumst hana sem óhefðbundið feðgasamband og það krefst mikils hugrekkis að deila svo miklu af sjálfum sér á sviði. Samstarfið gekk virkilega vel, við tókum með okkur austfirsku einlægnina og gleðina.“
Nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér pláss, en aðeins eru fjórar sýningar eftir, sem hér segir;
- Fimmtudagur 2. febrúar
- Sunnudagur 5. febrúar
- Föstudagur 9. febrúar
- Laugardagur 10. febrúar