![](/images/stories/news/2016/opeht.jpg)
Eistnaflug: „Við lofuðum því að vera ekki hætt með sleggjur“
Miðasala er hafin á þungarokkshátíðina Eistnaflug en stærstu sveitirnar í ár eru Opeth og Meshuggah.
„Við lofuðum því að við værum ekki hætt með sleggjur og við erum mjög stoltir af því að kynna sænsku risana Opeth og Mashuggah. Þetta eru gríðarlega virtar og glæsilegar hljómsveitir og Opeth er klárlega sú þekktasta sem við höfum fengið á Eistnaflug.
Dönsku tuddarnir í HateSphere munu einnig mæta og þrassa upp Eistnaflugið. Sveitin hefur verið starfandi frá 1998 og hefur til þessa gefið út níu stórar plötur, svo það er af nægu að taka,“ segir Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri hátíðarinnar.
Bandaríska dauðarokkssveitina Immolation verður einnig hjá okkur, en hún er einn af hornsteinum dauðarokksins og fáar, ef einhverjar sveitir í geiranum geta státað af jafn mögnuðum útgáfum á ferlinum. Það verður stórbrotin upplifun að sjá þessa galdramenn á sviðinu á Eistnafluginu.“
Áhugasamir ættu að tryggja sér miða í tíma
Fjölmargir íslenskir listamenn koma einnig fram á Eistnaflugi í ár. Þar á meðal er Magni Ásgeirsson, Páll Óskar og sveitirnar Agent Fresco, Mammút, Sólstafir, Dimma, Ham, Ensími, The Vintage Caravan, Fufanu, Abominor, Almyrkvi, Andri Ívars, Angist, Black Desert Sun, Casio Fatso, Great Grief, Hatari, Lucy In Blue, Nykur, Ottoman, Saktmóðigur, Stroff, Dr. Spock, Kolrassa Krókríðandi, Prins Póló, úlfur Úlfur, Marduk, Melecesh og Belfegor og Perturbator.
Miðasala fer fram á midi.is. „Miðasalan gengur afar vel og ættu áhugasamir ekki að bíða með að tryggja sér miða í tíma,“ segir Stefán.