Vigdís Diljá vann Samaust
Vigdís Diljá Óskarsdóttir, úr félagsmiðstöðinni Afreki í Fellabæ, vann söngkeppni félagsmiðstöðva á Austurland (Samaust) sem fram fór á Fáskrúðsfirði fyrir skemmstu. Hún söng frumsamið lag sem heitir „Ef þú bara vissir“.
Í öðru sæti voru þær Alexandra Hearn og Katrín Hulda Gunnarsdóttir úr Atóm á Norðfirði með lagið „Flottur jakki“ sem Ragnar Bjarnason gerði vinsælt. Snæþór Ingi Jósepsson, Knellunni á Eskifirði, varð þriðji með hið stórbrotna lag Leonards Cohen, „Hallelujah“
Um þrjú hundruð áhorfendur frá austfirskum félagsmiðstöðvum sóttu keppnina. Mörg laganna voru flutt við undirleik krakka úr miðstöðvunum sem alist hafa upp í tónlistarskólum á svæðinu.