Vildu komast í betra samband við grasrótina
„Eistnaflug er fyrst og fremst tónlistarhátíð, ein sú besta á landinu og verður það áfram,“ segir Jón Knútur Ásmundsson, verkefnastjóri hjá Austurbrú, en vinnufundur í tengslum við tónlistarhátíðina verður haldinn á Hótel Hildibrand í Neskaupstað á fimmtudaginn.
Síðasta haust tóku nýir samstarfssamningar, undir nafninu Austurland*, gildi í stað fyrri þjónustusamninga Austurbrúar og hefur tónlistarhátíðin Eistnaflug gerst aðili að slíkum samningi.
„Eitt af því sem Austurbrú gerir samkvæmt skilgreiningu er að fá fólk til að vinna saman eða eins og segir í stefnu hennar: „Við brúum bil og eflum tengsl ólíkra aðila til að úr verði sterkari heild“.
Eistnaflug óskaði eftir samstarfi við okkur síðastliðið haust og gerði samstarfssamning um áramótin. Sérstaklega var óskað eftir því að komast í betra samband við grasrótina á Austurlandi og þá einkum og sér í lagi ferðaþjónustuna.“
Eistnaflug er fyrst og fremst tónlistarhátíð
Jón Knútur segir Austurbré alltaf horfa til langtímamarkmiða. „Þessi fundur snýst einkum um að skapa traust og koma samtalinu af stað. Þannig verður vonandi lagður grunnur að frekara samstarfi í framtíðinni.“
Aðspurður hvort Eistnaflug muni taka einhverjum breytingum í tengslum við nýja samstarfið segir hann; „Eistnaflug er fyrst og fremst tónlistarhátíð, ein sú besta á landinu og verður það áfram. Hinsvegar gæti upplifun margra gesta orðið önnur með tíð og tíma og von okkar er sú að tónleikarnir verði eitt af mörgu sem tónleikagestir upplifa er þeir heimsækja Austurland enda margt hægt að gera hérna á þessum dögum sem hátíðin stendur yfir. Þannig fara þeir heim með enn betri minningar af Eistnaflugi og Austurlandi.“
Ljósmynd: Rhombie Sandoval.