Vilja deila Kínaskákinni áfram

„Kínaskák er einfalt eða passlega krefjandi spil og virkilega skemmtilegt,“ segir Jónína Jónsdóttir á Reyðarfirði, en í kvöld verur opið hús að Búðareyri 3 þar sem allir geta komið og kynnt sér spilið.


Kínaskákin hefur notið mikilla vinsælda á Reyðarfirði síðustu misseri. „Við teljum að iðkendur séu orðnir á bilinu 40-50, í fjórum spilaklúbbum.“

Jónína segir spilið ekki ósvipað Rommý, nema fyrirfram sé ákveðið hverju eigi að safna, auk þess sem spilað sé með fleiri en einn spilastokk. „Miðað er við einn spilastokk á hverja tvo spilara og eru jókerarnir hafðir með. Spilið gengur út á að hafa sem fæst stig í lokin, en spilaðar eru átta umferðir,“ segir Jónína.

Hópurinn hittist að jafnaði aðra hverja viku þar sem klúbbarnir skiptast á að halda spilakvöldin. „Við erum níu í hóp, en mætum yfirleitt fimm til átta í hvert skipti. Svo reynum við að fara einu sinni í mánuði á Fáskrúðsfjörð, en þar eru einnig nokkrir spilaklúbbar og mikill Kínaskáks áhugi.

Samveran er númer eitt
Hvað ætli sé svona heillandi við kínaskákina? „Það er samveran númer eitt, spilið er einnig upplagt í fjölskylduboðum og þegar vinahópar hittast. Okkur finnst þetta svo skemmtilegt spil að við viljum endilega deila því áfram, það er mikið spurt út í spilakvöldin og því ákváðum við að hafa opið kvöld svo þeir sem hafa áhuga geti mætt og prufað að spila. Við tökum vel á móti öllum, konum og körlum. Aðgangseyrir er 500 krónur og fer það upp í leigu á sal, kaffi og undirbúning á Austurlandsmóti.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.