Vinabekkir fóru saman í bæjargöngu - Myndir
Svokallaður vinadagur Egilsstaðaskóla er haldinn í dag en hann er hluti af aðgerðum skólans til að fyrirbyggja einelti. Námsráðgjafi skólans segir eftirvænting ríkja fyrir deginum þegar eldri nemendur taka að sér þá yngri.
Í skólanum er vinabekkjarkerfi þannig að eldri bekkur tekur að sér yngri bekk. Þeir fylgjast að í göngunni, þannig að sjötti bekkur sér um fyrsta bekk og svo framvegis. Kerfið er hins vegar í gangi allt skólaárið og standa bekkirnir sjálfir fyrir fleiri viðburðum.
„Það er alltaf eftirvænting meðal börnunum að hitta vini sína,“ segir Anna María Arnfinnsdóttir, námsráðgjafi.
Egilsstaðaskóli fylgir Olweusar-áætluninni gegn einelti. Sjötti október er Olweusar-dagur en sá dagur hefur nefndur vinadagur á Egilsstöðum. „Þann dag höfum við alltaf gert eitthvað sameiginlegt með bekkjunum með það að markmiði að hrista bekkina saman,“ útskýrir Anna María.
„Hlutverk dagsins er að búa til góða stund saman því samvera er eitt af því sem hefur sýnt sig sem verndandi þáttur gegn einelti.“
Skóladagurinn hófst á göngu um Egilsstaði en þegar komið var aftur í skólann tók við eineltisfræðsla í hverjum bekk fyrir sig. Vinabekkirnir hittast síðan aftur í hádeginu og borða saman.