Vinir hjálpa Tækniminjasafninu: Bjó til viðburð á Facebook og svo fór fólkið að streyma

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Tækniminjasafni Austurlands á Seyðisfirði að undanförnu. Í vikunni hefur staðið yfir vinavika safnsins þar sem margar hendur hafa hjálpast að við að standsetja safnið fyrir sumarið.


„Höfum undanfarið ár verið að gjörbylta safninu og meðal annars koma hér upp atburðarými þar sem við getum tekið á móti 150 manns í pinnamat,“ segir safnstjórinn Pétur Kristjánsson.

Tveimur „nýjum“ prentvélum hefur verið komið fyrir á safninu, aðgengi bætt fyrir hreyfihamlaða, þremur salernum bætt við, innréttuð gestaíbúð, ljósmyndastúdíó Eyjólfs Jónssonar opnað og fleira.

Til að þetta mætti ganga eftir kallaði Pétur eftir hjálp úr samfélaginu og efndi til vinaviku safnsins. „Við buðum fólki að koma á milli níu og fimm í sex daga og það hefur gengið framar vonum. Ég bjó til viðburð á Facebook og síðan hefur fólk komið endalaust að.“

Vikunni lýkur síðan seinni partinn á morgun þegar slegið verður upp teiti fyrir alla þá sem lagt hafa hönd á plóg.

Pétur segir mikinn áhuga á safninu á Seyðisfirði, meðal annars þar sem það tengis ýmsum öðrum stofnunum í bænum svo sem Skaftfelli. Safnið er skilgreint sem notendasafn þar sem þeir gripir sem virka og er ekki hætt við skemmdum eru notaðir, til dæmis prentvélarnar. „Við getum kallað þetta gæðafræðiskemmtistað,“ segir hann og hlær.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.