Vinjettuhátíðir í Fjarðabyggð um helgina
Tvær vinjettuhátíðir verða haldnar í Fjarðabyggð um helgina. Heimamenn lesa upp úr verkum Ármanns Reynissonar ásamt höfundinum og sjá einnig um hljóðfæraslátt.
Fyrri hátíðin verður laugardaginn 1. október kl. 15-17 í Randúlfshúsi á Eskifirði. Þar lesa upp vinjettur ásamt höfundi þau: Hansína Halldórsdóttir húsmóðir og Gunnlaugur Ragnarsson aðalbókari Eskifirði, leikararnir Þórður Vilberg Guðmundsson og Gunnar Ragnar Jónsson Reyðarfirði og nemendur úr Grunnskóla Eskifjarðar þær Nikólína Dís Kristjánsdóttir, Guðrún Anna Jóhannsdóttir. Tónlistaratriði er í höndum nemenda Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar.
Seinni hátíðin verður daginn eftir kl. 20-22 í Nesbæ í Neskaupstað.Nemendur úr listaakademíu Verkmenntaskóla Austurlands á Nesaupstað lesa upp vinjettur, ásamt höfundi, og annast tónlistarflutning.
Vinjettuhátíðar hafa verið haldnar á 26 stöðum um landið vítt og breytt. Ármann segir þær vera „í anda kvöldvökunnar sem haldnar voru í baðstofum landsmanna í þúsund ár en lognuðust út af á tuttugustu öld.“ Í miðri dagskrá er hálftíma hlé fyrir spjall og veitingar. Aðgangur er ókeypis.