„Vonum að sýningin verði aðdráttarafl fyrir heimafólk og ferðamenn“

Listsýning á verkum Wilhelm Beckmann var opnuð í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði síðastliðna helgi.



Á sýningunni gefur að líta myndir af verkum Wilhelm sem var íslenskur listamaður og myndhöggvari. Wilhelm var fæddur í Hamborg 1909 og ólst þar upp. Hann var útlærður myndhöggvari og setti upp eigin vinnustofu og kenndi við Listaháskóla Hamborgar. Hann var félagi í Þýska jafnaðarmannaflokknum og átti í útistöðum við nasista. Honum var gert að flýja land, fyrst til Danmerkur og síðan til Íslands árið 1935 þar sem hann bjó til æviloka.

Wilhelm kvæntist Valdísi Einarsdóttur frá Syðri Knarrartungu í Breiðuvík á Snæfellsnesi árið 1940 og börn þeirra eru þau Hrefna Beckmann og Einar Beckmann. Wilhelm lést árið 1965.

Árið 2013 kom Hrefna dóttir hans Stofnun Wilhelms Beckmanns á fót, en markmið hennar er að halda minningu hans á lofti og með því að gera verk hans sýnileg og aðgengileg. Eftir hann liggja fjölmörg listaverk og meðal annars eru skírnarfontarnir í Kolfreyjustaðarkirkju, Fáskrúðsfjarðarkirkju og Vopnafjarðarkirkju eftir hann.

Hrefna lést sama ár og stofnunin opnaði en aðrir aðstandendur listamannsins hafa verið að setja upp sýningar á verkum hans í hverjum landshluta fyrir sig þar sem landvætti fjórðungsins eru gerð skil, en landvættir Íslands voru honum sérstök hugðarefni.


Drekinn aðalatriði sýningarinnar

Maður Hrefnu, dr. Jón Þórhallsson og Hrafn Andrés Harðarson, sýningarstjóri stofnunarinnar, settu upp sýninguna á Eskifirði.

„Tengdafaðir minn lét eftir sig gríðarlega mörg verk, við erum búin að finna á annað hundruð þeirra. Ætlunin er ekki að safna verkum hans, aðeins að vita hvar þau eru, taka af þeim myndir og þannig kynna hann sem listamann og varðveita minningu hans.

Við erum hrifin af menningarmiðstöðinni á Eskifirði og völdum að vera þar, þó svo að þar sé ekki skírnarfontur eftir hann. Sýningin er ekki stór en á henni er ein stór mynd af landvætti Austurlands, drekanum, ásamt nokkrum minni ljósmyndum af verkum hans og upplýsingum um hann sjálfan.

Það er okkar von að sýningin muni auðga menningarmiðstöðina og verði aðdráttarafl fyrir heimafólk og ferðamenn,“ segir Jón.

Ljósmynd: Einar Beckmann. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.