Vopnfirsk systkini sigruðu í Tónkvíslinni
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. feb 2013 11:49 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Vopnfirsku systkinin Daníel Smári og Gabríela Sól Magnúsarbörn unnu sinn flokkinn hvorn á Tónkvíslinni, söngkeppni framhaldsskólans á Laugum, sem fram fór um síðustu helgi.
Keppnin að þessu sinni var þrískipt. Tónkvíslin er söngkeppni framhaldsskólans en samhliða henni er haldin söngkeppni grunnskóla á norðausturhorninu. Þar keppa söngvarar frá Vopnafirði, Þórshöfn, Húsavík, Stóru-Tjörnum og Þingeyjarsveit. Að auki kepptu fulltrúar Menntaskólans á Tröllaskaga á Laugum.
Daníel Smári vann Laugakeppnina en hann söng lagið „More Than a Feeling“ eftir hljómsveitina Boston. Systir hans, Gabríela Sól, vann söngkeppni grunnskólanna með laginu „Take me or Leave Me“ úr söngleiknum Rent.
Alls voru 28 atriði í keppninni þetta árið og 500 manns fylltu íþróttahúsið á Laugum. Daníel Smári ávann sér með sigrinum þátttökurétt í söngkeppni framhaldsskólanna.
Daníel og Gabríela ánægð með sigurlaunin. Mynd: Örlygur Hnefill Örlygsson