![](/images/stories/news/2016/einar_skulason.jpg)
Djúpivogur kominn á Wappið
Djúpivogur er fyrsti staðurinn á Austurlandi sem kominn er inn í Wappið sem gönguáhugamaðurinn Einar Skúlason hannar og gefur út. Fleiri staðir að austan eru í vinnslu og enn fleiri á teikniborðinu.
Wapp er stytting á orðinu Walking-app, sem er samsafn gönguleiðalýsinga fyrir snjallsíma, byggðar á GPS-punktum úr kortagrunni frá Samsýn. Fyrir hvert svæði eru almennar upplýsingar ásamt enn frekari upplýsingum um ákveðin hnit á leiðinni sem vert þykir að fjalla um.
Bak við hvert hnit getur verið fróðleikur um lífríki, jarðfræði, örnefni eða annað sögulegt efni sem tengist umhverfinu. Ljósmyndir og/eða teikningar eru í öllum leiðarlýsingum. Einnig upplýsingar um árstíðabundinn aðgang og ef ástæða þykir til að benda á hættur eða sérstök varúðarsjónarmið.
Breiðdalsvík, Borgarfjörður og Seyðisfjörður í vinnslu
Enn eru flestar skráðar leiðir á höfuðborgarsvæðinu en alltaf eru fleiri af landsbyggðinni að bætast við, bæði í þéttbýli og dreifbýli.
„Djúpivogur var fyrsti staðurinn fyrir austan til að fara inn í Wappið en það var einfaldlega af því að upplýsingafulltrúinn þeirra, Erla Dóra Vogler var svo áhugasöm og fljót að bregðast við. Núna er ég að vinna með fólki á Breiðdalsvík, Borgarfirði og Seyðisfirði, auk þess sem enn fleiri eru á áætlun,“ segir Einar.
Einar er stjórnmálafræðingur að mennt og mikill náttúruunnandi og hlaut nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir rannsóknir á sviði ferðamála þegar hann var í háskólanum, í tengslum við könnun sem hann gerði á upplifun ferðamanna út frá náttúru- og umhverfismálum á Íslandi. Hann er þaulvanur göngu- og leiðsögumaður og hefur gefið út tvær bækur um leiðalýsingar.
Wappið fór í loftið síðastliðinn nóvember. „Hugmyndin um það kviknaði í kjölfar útgáfu bókanna. Mér þykja bækur skemmtilegar og hef notað þær gegnum tíðina en bæði eru þær þungar í burði og eiga það til að skemmast í þessum ferðum.
Wappið er góð leið til þess að halda utan um mikið magn upplýsinga á einum stað, auk þess sem margmiðlunin sameinar þekkingu og öryggi, en það er mikið atriði að hafa allt í símanum á sama stað, fróðleik, kort og GPS-tæki. Þetta form er framtíðin.“
Markmiðið er að tengja manninn og náttúruna
Allar leiðirnar á Wappinu eru bæði á íslensku og ensku en Einar stefnir á að þýtt verði á fleiri tungumál í framtíðinni.
„Markmið mitt er að tengja manninn og náttúruna. Mér þykir mikilvægt að tala ekki bara um landslagið heldur söguna á bak við staðhættina, eins og örnefni, þjóðsögur og fleira. Þetta er þekking sem þarf að komast á milli kynslóða því fróðleikur af þessu tagi eykur virðingu fyrir landinu og má segja að sé einn liður í náttúruvernd.
Ég er í viðræðum við fjölmörg sveitarfélög um samstarf því ég vil gera þetta í samvinnu við heimafólk sem þekkir staðina, sem og landeigendurna líka.“
Wappið er bæði gert fyrir Android og IOS-stýrikerfi (Iphone og Ipad) og er góð leið til að finna nýjar gönguleiðir. Auðvelt er að hlaða Wappinu inn á símann, best er að sækja það á www.wapp.is þar sem tenglar eru á Appstore og Playstore.