Djúpivogur kominn á Wappið

Djúpivogur er fyrsti staðurinn á Austurlandi sem kominn er inn í Wappið sem gönguáhugamaðurinn Einar Skúlason hannar og gefur út. Fleiri staðir að austan eru í vinnslu og enn fleiri á teikniborðinu.

 

Wapp er stytting á orðinu Walking-app, sem er samsafn gönguleiðalýsinga fyrir snjallsíma, byggðar á GPS-punktum úr kortagrunni frá Samsýn. Fyrir hvert svæði eru almennar upplýsingar ásamt enn frekari upplýsingum um ákveðin hnit á leiðinni sem vert þykir að fjalla um.

Bak við hvert hnit getur verið fróðleikur um lífríki, jarðfræði, örnefni eða annað sögulegt efni sem tengist umhverfinu. Ljósmyndir og/eða teikningar eru í öllum leiðarlýsingum. Einnig upplýsingar um árstíðabundinn aðgang og ef ástæða þykir til að benda á hættur eða sérstök varúðarsjónarmið.

Breiðdalsvík, Borgarfjörður og Seyðisfjörður í vinnslu

Enn eru flestar skráðar leiðir á höfuðborgarsvæðinu en alltaf eru fleiri af landsbyggðinni að bætast við, bæði í þéttbýli og dreifbýli.

„Djúpivogur var fyrsti staðurinn fyrir austan til að fara inn í Wappið en það var einfaldlega af því að upplýsingafulltrúinn þeirra, Erla Dóra Vogler var svo áhugasöm og fljót að bregðast við. Núna er ég að vinna með fólki á Breiðdalsvík, Borgarfirði og Seyðisfirði, auk þess sem enn fleiri eru á áætlun,“ segir Einar.

Einar er stjórnmálafræðingur að mennt og mikill náttúruunnandi og hlaut nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir rannsóknir á sviði ferðamála þegar hann var í háskólanum, í tengslum við könnun sem hann gerði á upplifun ferðamanna út frá náttúru- og umhverfismálum á Íslandi. Hann er þaulvanur göngu- og leiðsögumaður og hefur gefið út tvær bækur um leiðalýsingar.

Wappið fór í loftið síðastliðinn nóvember. „Hugmyndin um það kviknaði í kjölfar útgáfu bókanna. Mér þykja bækur skemmtilegar og hef notað þær gegnum tíðina en bæði eru þær þungar í burði og eiga það til að skemmast í þessum ferðum.

Wappið er góð leið til þess að halda utan um mikið magn upplýsinga á einum stað, auk þess sem margmiðlunin sameinar þekkingu og öryggi, en það er mikið atriði að hafa allt í símanum á sama stað, fróðleik, kort og GPS-tæki. Þetta form er framtíðin.“


Markmiðið er að tengja manninn og náttúruna

Allar leiðirnar á Wappinu eru bæði á íslensku og ensku en Einar stefnir á að þýtt verði á fleiri tungumál í framtíðinni.

„Markmið mitt er að tengja manninn og náttúruna. Mér þykir mikilvægt að tala ekki bara um landslagið heldur söguna á bak við staðhættina, eins og örnefni, þjóðsögur og fleira. Þetta er þekking sem þarf að komast á milli kynslóða því fróðleikur af þessu tagi eykur virðingu fyrir landinu og má segja að sé einn liður í náttúruvernd.

Ég er í viðræðum við fjölmörg sveitarfélög um samstarf því ég vil gera þetta í samvinnu við heimafólk sem þekkir staðina, sem og landeigendurna líka.“

Wappið er bæði gert fyrir Android og IOS-stýrikerfi (Iphone og Ipad) og er góð leið til að finna nýjar gönguleiðir. Auðvelt er að hlaða Wappinu inn á símann, best er að sækja það á www.wapp.is þar sem tenglar eru á Appstore og Playstore.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.