Yfir tvö hundruð frásagnir í safni

frasagnasafn1.jpg
Söfnun í Frásagnasafnið á Seyðisfirði er formlega lokið en sögurnar voru formlega afhentar til varðveislu um helgina við athöfn í menningarmiðstöðinni Skaftfelli. Safnið geymir yfir tvö hundruð frásagnir Seyðfirðinga.

„Það er einstakt að geta kortlagt endurminningar heils samfélags. Slík yfirsýn veitir ekki einungis innsýn í samfélagið heldur er það einstæð samtímaheimild. Heimild um mannlega tilvist, heimild um gang tímans, samspil kynslóðanna og þann grunn er liggur á bak við samtímann,“ segir í fréttatilkynningu frá Skaftfelli.

Söfnun á frásögnum í Frásagnasafnið lauk formlega 1. desember. Verkefnið stóð yfir í tvö ár og á þeim tíma söfnuðust 214 frásagnir frá íbúum Seyðisfjarðar. Frumkvæðið að verkefninu kom frá listrænum stjórnandi Skaftfells 2011-2012, svissneska listamanninum Cristoph Büchel. Verkefnið var unnið í samvinnu við Þjóðfræðistofu á Hólmavík, en söfnun fyrir vestan mun halda áfram. 

Tilgangurinn var að safna frásögnum allra íbúa Seyðisfjarðar á árunum 2011 til 2012 og varðveita einskonar svipmyndir sem saman gefa heildstæða mynd af samfélaginu. Frásagnir hafa verið teknar upp á myndband og sýndar í bækistöð verkefnisins, söfnunarmiðstöðinni, í aðalsýningarsal Skaftfells.

Söfnunarmiðstöðin var fyrst opnuð 17. júní 2011 með 25 frásögnum. Í lok nóvember voru frásagnirnar orðnar 100 talsins og urðu þá einnig kaflaskil í verkefninu þegar að frásagnir frá Þjóðfræðistofu bættust við. Söfnunarmiðstöðin opnaði í annað sinn 12. maí 2012. Þá voru rúmlega 170 frásagnir til sýnis og þar af 25 með enskum texta. Í lokin voru frásagnirnar orðnar 214. 

Alls komu fimm aðilar að söfnun frásagna. Árný Bergsdóttir var verkefnastjóri og starfaði lengst af við verkefnið. Aðrir voru Kári Gunnlaugsson, Bjarki Borgþórsson, Hanna Christel Sigurkarlsdóttir og Kristján Loðmfjörð.

Við afhöfnina um helgina voru afrit af Frásagnasafninu afhent Bókasafni Seyðisfjarðar, Héraðskjalasafni Austfirðinga og Tækniminjasafni Austurlands til varðveislu. Af þessu tilefni héldu Árný Bergsdóttir og Pétur Kristjánsson stutt erindi um verkefnið. Söfnunarmiðstöðin verður opin almenningi til lok desember.
 
frasagnasafn2_web.jpg
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.