Yfirheyrslan: Björgvin Valur dansar ballett í sturtu

Björgvin Valur Guðmundsson á Stöðvarfirði hefur staðið í ströngu undanfarið við að koma af stað og fylgja eftir fornleifauppgreftri í Stöð á Stöðvarfirði. Hann er í yfirheyrslu vikunnar.


Árið 2014 frétti Björgvin Valur af því að fornleifafræðingurinn Bjarni Einarsson teldi rústir af mjög gamalli byggingu vera í túninu við Stöð. Hann setti sig í samband við Bjarna, menningar- og safnanefnd Fjarðabyggðar og fékk Minjastofnun Íslands.

Rústirnar voru rannsakaðar í nóvember og fyrstu niðurstöður gefa til kynna að þar séu fornar minjar frá 9. öld að finna, eins og lesa má hér.

Fullt nafn: Björgvin Valur Guðmundsson.

Aldur: 56 ára.

Starf: Leiðbeinandi í grunnskóla og rafbókahöfundur.

Maki: Þóra Björk Nikulásdóttir.

Börn: Jesse Myree, Erna Valborg, Haukur Árni og Axel Þór.

Hver er besta hugmyndin sem þú hefur fengið það sem af er vikunni? Að bjarga heiminum en ég komst því miður ekki í það.

Hvað ertu með í vösunum? Lykla og kortaveski.

Duldir hæfileikar? Ég tala við geimverur.

Kaffi eða te? Kaffi.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Ég myndi vilja getað verndað öll börn fyrir illsku þessa heims.

Besta bók sem þú hefur lesið? Flestar bækur sem ég les finnst mér góðar en ég get ekki valið eina úr. Núna er ég að lesa „Þegar Gestur fór“ eftir Helga Ingólfsson og hún er alveg prýðileg. Ég er háður glæpasögum og lesbrettið mitt er fullt af Rebus og Montalbano og Morse og fleiru slíku fólki. Geri minna af því að lesa harmreynslusögur því það er nóg af drasli í raunveruleikanum sem grætir mann á hverjum degi. Þess vegna reyni ég að lesa helst eitthvað vellíðandi.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Allur matur nema þessi gamli, súri og úldni sem einkennir þjóðlegt íslenskt eldhús.

Hvað bræðir þig? Hún Bergdís Adda, afastelpan mín, bræðir mig.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Vorið. Þá kviknar líf.

Syngur þú í sturtu? Nei, en ég tek alltaf nokkur balletspor ef ég er einn heima.

Hver er þinn helsti kostur? Ég fer út með ruslið óbeðinn. Stundum.

Hver er þinn helsti ókostur? Óákveðni? Nei, ég er ekki viss.

Mesta afrek? Að hafa átt einhvern hlut í því að gera öll börnin mín að föðurbetrungum þótt vissulega eigi mæður þeirra stærri þátt í því en ég.

Ertu nammigrís? Já, því miður.

Besta bíómynd allra tíma? Key Largo. Nei, ég veit ekki. North by Northwest kannski. Fargo?

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Vakna, vinna, elda mat, skrifa, slæpast, lesa, sofna.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Föstudagur, því þá eru oftast tveir frjálsir dagar framundan.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Jesús, þessi er erfið!

Settir þú þér áramótaheit? Nei, það held ég ekki.

Trúir þú á „comeback“ UMF Súlunnar? Hvaða tímaramma erum við að tala um hér?

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.