Yfirheyrslan: Býr með gíturunum sex og hinum hljóðfærunum
Pjetur St. Arason hefur verið aðaldrifkrafturinn að stórtónleikum sem fram fara í Egilsbúð á laugardagskvöld klukkan 20:00. Meðal sveitanna sem fram koma er Bassaband Friðriks Vilhjálmssonar sem stofnað var af fimm bassaleikurum, trommara og Pjetri en allir unnu í netagerð Friðriks.
„Þetta eru tónleikar þar sem tónlistarmenn á Norðfirði koma saman og spila tónlist fyrir sjálfa sig og aðra. Þetta verður býsna fjölbreytt efnisskrá, allsskonar tónlist við allra hæfi. Þetta verða svona „fögnum fjölbreytileikunum“ eða tónleikar án fordóma. Hugmyndin var sú að fá sem flesta en það verða væntanlega eitthvað um sextíu manns sem koma þarna fram,“ segir Pjetur.
Nokkrir norðfirskir söngvarar kona fram en bassabandið mun gera atlögu að Íslandsmeti í fjölda bassaleikara á sviði, karlakórinn Ármenn stígur á stokk auk fleiri nafna. Pjetur er í yfirheyrslu Austurfréttar að þessu sinni.
Fullt nafn: Pjetur St. Arason
Aldur: Ætli ég verði ekki að segja að hann sé virðulegur, ég er fjörgamall - nei, án gríns þá varð ég fimmtugur í janúar.
Starf: Framhaldsskólakennari.
Maki: Ég er einstæður faðir, ætli megi ekki segja að ég sé giftur músíkinni, ég bý með gíturunum mínum sex og hinum hljóðfærunum.
Börn: Þau eru þrjú og allt eru þetta perlur. Það er strákur sem er klára tíunda bekk í Nesskóla, dóttir sem er á fyrsta ári í hárgreiðslu i Verkmenntaskólanum á Akureyri og svo á ég á 27 ára dóttur hinum megin á hnettinum og ég hef ekki séð 26 ár, en þökk sé nútímatækni þá getum við verið í þokkalegu sambandi.
Mesta undur veraldar? Tónlistin alveg pottþétt að það sé hægt að búa til svona tóna sem hafa margvísleg áhrif á fólk.
Hver er þinn helsti kostur? Hvatvísi sem stundum býr til góða hluti.
Hver er þinn helsti ókostur? Athyglisbrestur og óþolinmæði.
Uppáhalds matur? Maturinn sem ég fæ í hádeginu á heimavistinni hjá Áshildi.
Uppáhalds plata? Þær eru ansi margar, en tvær í augnablikinu Swordfishtrombones með Tom Waits og Clapton frá 2010.
Bestu tónleikar sem þú hefur farið á? Þeir voru í Krakow 1998. Þar var mikið af litlum börnum sem sátu víðsvegar á gangstéttinni og spiluðu á harmonikkur, mörg hver bara býsna góð. Svo var það eitt kvöldið þegar við félagarnir vorum á rölti um miðbæinn að það settist niður einhver gæi, tók upp harmonikkuna sína og spilaði Brandeburgarkonsertinn eftir Bach á nikkuna. Það var magnað móment.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Ætli ég verði ekki að nefna gamla blúshundinn Robert Johnson.
Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að gera alla yfirmáta káta með gítarnum mínum.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Jörund Hundadagakonung, hann hélt víst flottar veislur.
Hver væri titilinn á ævisögunni þinni? „Vort líf, veisla í tónum“
Syngur þú í sturtu? Nei, en allstaðar annars staðar.
Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Myndi ég bæta aðstæður þess fólks sem neyðist til að flýja heimili sitt því
Topp þrjú á þínum „bucket list“? Fara í tónleikaferð með DDT-skordýraeitri til útlanda. Taka þátt í Prag-maraþoninu og heimsækja dóttur mína „downunder“.
Duldir hæfileikar? Ég á erfitt að með fara dult með nokkurn skapaðan hlut og það verður sífellt erfiðara á tímum samfélagsmiðla eins og fésbókar og snapps.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Þegar ég fimm ára þá sagði ég Kötu Halldóru frænku minni að ég ætlaði að vera rithöfundur og það er ennþá stefnan.
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Hann er hálftómur greyið, en við feðgarnir eigum alltaf til safa og sultu (ómissandi á ristaða brauðið).
Í hvaða hljómsveitum hefurðu verið? Þær eru nokkrar en fæstar orðið langlífar af ýmsum orsökum. Þetta eru bönd eins og „Pjetur Arason og sleggjupungarnir, „Spyss“, „Ormarnir í Veiðimannsboxinu“, „Doddi og Draumaprinsarnir“, „DDT-Skordýraeitur“ og „Óskabörn ógæfunnar“
Mesta afrek? Ég upplýsi það eftir helgina. Annars þá eru það börnin mín.
Hvaða lag er með flottasta bassasólóinu? Það er í laginu „Born to run“ að sjá Steinar Gunnarson spila það á sviði með SúEllen er ógleymanlegt.