Birtingur NK verður gerður út með tvöfaldri áhöfn í stað Gullvers og Jóhönnu Gísla
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. sep 2025 18:31 • Uppfært 29. sep 2025 18:33
Síldarvinnslan tilkynnti í dag að til standi að hætta útgerð Gullvers NS og Jóhönnu Gísladóttur GK. Til stendur að Birtingur NK veiði að miklu leyti þann kvóta sem skipin tvö hafa til þessa veitt. Hluta þeirra skipverja sem sagt hefur verið upp mun bjóðast að færa sig á Birting. Forstjóri Síldarvinnslunnar segir ýmsar aðstæður í rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja leiða til þessarar ákvörðunar.
„Ákvarðanir sem kalla á uppsagnir eru ávallt flóknar og erfiðar, en Síldarvinnslan leggur sig fram um að milda áhrif aðgerðanna eftir fremsta megni. Þær eru hins vegar nauðsynlegar til að tryggja og viðhalda samkeppnishæfni félagsins og starfsemi til framtíðar.
Rekstrarumhverfi hefur verið að breytast, útlit fyrir frekari samdrátt aflaheimilda. Við erum að leggja skipum sem komin eru til ára sinna,“ er haft eftir Gunnþóri Ingvasyni, forstjóra Síldarvinnslunnar, í tilkynningu félagsins.
Gullver NS 12 er eitt af eldri skipum íslenska flotans, smíðað árið 1983 og alla tíð gert út frá Seyðisfirði. Síldarvinnslan keypti útgerð þess, Gullberg, árið 2014. Jóhanna Gísladóttir er smíðuð árið 1998 og gerð út af Vísi í Grindavík sem Síldarvinnslan eignaðist sumarið 2022.
Birtingur gerður út með tvöfaldri áhöfn
Í fyrrahaust keypti Síldarvinnslan togarann Þóri af Skinney-Þinganesi. Það skip var smíðað árið 2009 og endurbætt 2019. Nafni þess var breytt í Birtingur NK. Það var fyrst leigt en hefur síðan í janúar legið bundið við bryggju í Hafnarfirði. Nú stendur til að ræsa það. Tíminn hefur verið nýttur til einhverra endurbóta, meðal annars er netabúnaður kominn um borð.
„Kvótinn verður ekki seldur heldur veiddur af öðrum skipum samstæðunnar svo sem Birtingi og Blæng,“ segir Gunnþór í samtali við Austurfrétt. Innan hennar verða eftir breytingarnar þrír ísfisktogarar, tvö línuskip og frystitogari.
Búið er að segja upp áhöfnum togaranna tveggja, alls 40 manns. Áhöfn Gullvers telur um 20 manns, þar af eru sjö búsettir á Seyðisfirði. Ákveðið var að allir skipverjar fengju sex mánaða uppsagnarfrest. Gert er ráð fyrir að á Birtingi verði tvöföld áhöfn, þannig um er að ræða 24-26 pláss.
Eftir er að skoða hvaða störf séu í boði fyrir þá sem ekki fá pláss á Birtingi. „Ég lofa ekki að allir fái pláss á skipum Síldarvinnslunnar en við leggjum okkur fram um það eins og hægt er. Við eigum eftir að fara yfir hvað sé af lausum plássum innan samstæðunnar. Það á líka eftir að koma í ljós hverjir hafi áhuga og ætli sér að vera áfram á sjó.“
Niðurskurður á heimildum í þorski
Í tilkynningunni segir að ákvörðunin sé hluti hagræðingaraðgerða til að bregðast við samdrætti aflaheimilda, áhrifum af hækkun kostnaðar og breytingum á rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja. „Við höfum 4.000 tonnum minna af þorski núna heldur en árið 2019. Slíkur samdráttur kemur einhvers staðar niður,“ segir Gunnþór.
Gullver hefur að mestu landað á Seyðisfirði en þó líka í öðrum höfnum, til dæmis í Hafnarfirði eftir fimm túra seinni part vetrar. Þótt Birtingur sé skráður í Neskaupstað er ekki þar með sagt hann landi alltaf þar. „Gullver hefur farið inn og út frá Seyðisfirði en ekkert verið allar vikur á sjó. Það verður róið stífar á Birtingi. Með tvöfaldri áhöfn, eins og á flestum skipum, verður skipið alltaf á sjó og landar þá þar sem hagstæðast er hverju sinni.“
Hráefnisskortur í bræðslunni
Þar með er fiskimjölsverksmiðjan eina eining Síldarvinnslunnar sem eftir er á Seyðisfirði. Aðspurður svarar Gunnþór að framtíð hennar sé óljós vegna skorts á hráefni. „Það er ljóst að staða hennar er ekki góð því það hefur verið lítið hráefni síðustu misseri. Það hefur ekki veiðst loðna síðustu tvö ár og á morgun verður gefin út ráðgjöf um veiði á deilistofnum, meðal annars kolmunna. Það hefur verið spáð samdrætti í honum. Verksmiðjan hefur byggt starfsemi sína á þessum tveimur tegundum.“
Síldarvinnslan tilbúin að fjárfesta í verkefnum en ekki leiða þau
Tvö ár eru síðan tilkynnt var um lokun frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Þá lýsti fyrirtækið sig tilbúið til að taka þátt í atvinnuþróun í bænum til að milda höggið af lokuninni. Skipaður var starfshópur með Austurbrú og Múlaþingi sem skilaði af sér tillögum vorið 2024. Þær hugmyndir hafa ekki enn orðið að veruleika.
„Þessi hópur var ekki á forsvari Síldarvinnslunnar heldur bæjaryfirvalda sem stýrðu vinnunni. Við lýstum því hins vegar yfir að við værum tilbúnir að koma að áhugaverðum verkefnum. Að beiðni þessa hóps settum við fjármuni í að kanna fýsileika þess að breyta frystihúsinu og skipa því upp í einingar. Það voru ýmsar hugmyndir um nýtingu á frystihúsinu en engin lokaniðurstaða þar um.
Eins lögðum við fjármuni í rekstrarkönnun á frystihúsinu. Ég hef tekið undir hugmyndir um að það vanti gott hótel á Seyðisfjörð en það þarf einhvern til að draga vagninn að þeim hugmyndum þannig þær verði að veruleika.
Síldarvinnslan ætlar ekki að hafa frumkvæði að verkefnum en er tilbúin að styðja við fjárhagslega skynsamleg verkefni. Hugmyndirnar verða að vera keyrðar áfram af þeim sem ætla sér að láta þær rætast. Við höfum því miður ekki fengið nein tilboð um fjárfestingatækifæri en heyrt ýmsar hugmyndir.“
Mynd: Síldarvinslan/Ómar Bogason