Brotið ofsafengið og hending að ekki hafi hlotist bani af
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. jún 2025 07:38 • Uppfært 10. jún 2025 07:46
Héraðsdómur Austurlands telur fullsannað að Jón Þór Dagbjartsson hafi komið fyrrum sambýliskonu sinni í lífshættulegt ástand með hrottafenginni árás um miðjan október. Jón Þór var dæmdur sekur í öllum þeim atriðum sem hann var ákærður fyrir og gert að sæta sex ára fangelsi.
Dómsorð var lesið upp í dómsal síðasta miðvikudag en dómurinn sjálfur var gerður opinber um helgina. Þar með er ljóst á hvaða forsendum Jón Þór var dæmdur.
Ákærurnar gegn honum voru í nokkrum liðum. Alvarlegasta ákæran laut að árás gegn sambýliskonunni fyrrverandi í skemmu á fyrrum heimili þeirra á Vopnafirði síðdegis miðvikudaginn 16. október síðastliðinn. Jón Þór lagði til hennar með litlum járnkarli og reyndi að stinga hana. Því varðist konan með höndunum en féll síðan á gólfið. Þar settist Jón Þór ofan á hana og þrengdi að hálsi hennar með járnkarlinum.
Áttaður á verknaðarstundu
Vörn Jón Þórs gekk út á að hann hefði verið ófær um að stjórna gjörðum sínum á verknaðarstundu. Jón Þór sagðist meðal annars hafa á þeim tímapunkti glímt við mikla áfallastreituröskun og reynt var að leiða að því líkur að hann hefði farið í hugrof, mögulega vegna hás blóðsþrýstings, sem meðal annars ylli því að hann myndi lítið eða ekkert eftir atburðunum. Þá sagðist Jón Þór hafa misst stjórn á sér þegar konan hótaði því að annar maður myndi ala upp son þeirra.
Geðlæknar sem komu fyrir dóminn sögðu ekkert benda til þess að Jón Þór hefði verið í geðrofi og því væri hann sakhæfur. Meðal annars virðist hann fulláttaður á myndböndum úr búkmyndavélum lögreglu eftir handtökuna. Þótt ekki sé efast um að hann hafi komist í uppnám í rifrildi né áfallasögu hans þá hafi hann verið fullfær um að stjórna gjörðum sínum. Honum hafi þar með verið ljóst að bani gæti hlotist af árásinni.
Sannað að konan hafi verið sett í lífshættulegt ástand
Í málinu var tekist á um ásetning Jóns Þórs, hvort hann hafi sjálfviljugur látið af háttseminni áður en hún gekk of langt og hvort um væri að ræða stórfellda líkamsárás fremur en tilraun til manndráps. Refsing fyrir tilraun er að lágmarki fimm ár en heimild er til refsilækkunar sé árás ekki fullframin.
Jón Þór sagðist sjálfur hafa hætt árásinni. Á upptöku úr öryggismyndavél heyrðist hann þó segja „ætla að kála henni“. Bæði konan, sem og vinkona hennar sem kom fyrst að eftir árásina, höfðu sömu orð eftir Jóni.
Samkvæmt skýrslu réttarmeinafræðings hlaut konan áverka í árásinni sem benda til þess að blóðflæði upp í heila hafi verið skert í nokkrar sekúndur. Þótt ekki sé hægt að segja um meðvitundarstig þá þurfti kraft sem geti valdið truflun í heila og þar með sé hægt að komast nærri dauða. Í upptöku í fangaklefa segir Jón Þór að konan hafi verið „orðin blá.“ Vinkonan sagði að nokkra stund hefði tekið að ná sambandi við konuna og hún fyrst talið að hún væri dáin.
Dómurinn telur því sannað að hún hafi verið sett í andnauð og meðvitund hennar skert. Þar með hafi hún verið sett í lífshættulegt ástand. Heilt yfir telur dómurinn framburð Jóns Þórs ótrúverðugan og fátt í honum sem hönd sé á festandi. Dómurinn telur að Jón Þór hafi ekki verið meðvitaður um hvort konan væri lífs eða liðin þegar hann fór frá henni eftir árásina.
Dómurinn lýsir brotinu sem ofsafengnu og telur hendingu að ekki hafi hlotist bani af. Þá sér dómurinn ekkert í aðdraganda eða aðstæðum brotsins sem gefi tilefni til að milda refsingu Jóns Þórs. Sú móðgun sem hann kunni að hafa orðið fyrir sé hvergi nærri alvarleika brotsins. Þó er tekið fram að hann hafi sýnt iðrun og unnið að því að takast á við sinn vanda.
Stórfelld brot gegn fyrrverandi maka
Jón Þór var einnig ákærður fyrir húsbrot, með að hafa þremur dögum fyrr farið óboðinn inn á fyrrum heimili sitt og konunnar og síðan neitað að fara úr húsinu eftir samskipti þeirra. Hann var einnig ákærður fyrir kynferðislega áreitni í það skipti. Dómurinn taldi hann sekan þar, ásakanirnar ættu sér stuðning í upptökum Neyðarlínu og framburði vitna.
Héraðsdómur lýsir árásum sem stórfelldum og þær hafi beinst gegn fyrrverandi maka. Ekki sé útséð um bata konunnar, hvorki andlega né líkamlega en hún hlaut taugaskaða í hægri handlegg við síðari árásina. Jón Þór var því dæmdur til að greiða henni rúmar þrjár milljónir króna í bætur en hún fór fram á sex.
Varsla skotvopna óheimil og saknæm
Jón Þór var einnig ákærður fyrir að hafa ráðist á íbúa á Vopnafirði í nóvember 2023. Jón Þór hafði verið með verkfæri í geymslu hjá hinum en til deilna kom á milli þeirra. Var honum gefið að sök að hafa slegið manninn með gosdós og síðan ráðist á hann. Lögreglumaður á frívakt, sem sá hluta átakanna frá heimili sínu, bar fyrir dóminum að svo virtist sem Jón Þór hefði sparkað í búk mannsins. Dómurinn taldi fullsannað að Jón Þór hefði ráðist á manninn og hver sem tildrög þess hefðu verið þá leiddu þau ekki til refsileysi, en Jón Þór kvað manninn hafa átt upptökin.
Að endingu var Jón Þór ákærður fyrir að hafa í fórum sínum 14 skotvopn, óskráð og ekki rétt geymd, þegar lögregla fór í húsleit á heimili hans í nóvember 2023. Gerð var krafa um að þau yrðu gerð upptæk. Jón Þór reyndi að verjast henni á þeim forsendum að lögreglumenn hefðu áður séð þau á heimili hans án þess að gera athugasemdir. Hann hefði verið í samskiptum við lögreglu um skráningu og verið að afla sér réttinda til að hafa þau. Þá væru vopnin erfðagripir og að mestu óvirk.
Í dóminum segir að það leysi Jón Þór ekki undan sök þótt lögreglumenn hafi, hvort sem heldur í starfi eða frítíma, komið að heimili hans án þess að gera athugasemdir við vopnin, né að hann hafi unnið að öflun leyfis eða vopnin verið óvirk. Þvert á móti telur dómurinn að umsókn Jóns Þórs um endurnýjun skotvopnaleyfis sönnun þess að hann hafi vitað að ekki væri fyllilega rétt staðið að. Óháð því hvernig Jón Þór eignaðist vopnin þá hafi varsla þeirra verið óheimil og saknæm. Þess vegna var fallist á kröfu um að byssurnar 14 væru gerðar upptækar.
Til viðbótar var Jón Þór dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, 15 milljóna króna. Saksóknari fór fram á 7-8 ára fangelsi. Frá refsingunni dregst sá tími sem Jón Þór hefur setið í gæsluvarðhaldi.