Neitar sökum eða ber við minnisleysi um árásir gegn fyrrum sambýliskonu
Karlmaður á sextugsaldri, sem ákærður er fyrir að hafa reynt að ráða fyrrum sambýliskonu sinni bana á Vopnafiðri í október, sagðist ekkert muna eftir þeim hluta samskipta þeirra þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Austurlands í dag. Hann neitaði refsiverðri háttsemi í öðrum ákærðum, en hann er um leið kærður fyrir aðra líkamsárás, vopnalagabrot og áreitni gagnvart konunni.Alvarlegasti hluti málsins snýr að tilraun til manndráps eða stórfelldri líkamsárás, samkvæmt ákæru. Maðurinn er sagður hafa veist að konunni með rúllubaggateini, reynt að stinga hana, ýtt við henni þar til hún féll til jarðar og síðan þrengt að hálsi hennar með teininum. Konan hætti að geta andað og meðvitund hennar skertist. Konan meiddist einnig á höndum og fótum í árásinni.
Við þingfestinguna í dag sagðist maðurinn ekki geta svarað því sem hann myndi ekki eftir. Hann sagði konuna hafa verið í skemmunni að henda út verkfærum hans og sent honum fingurinn. Það ætti að sjást á öryggismyndavélum. Hann hefði farið í skemmuna þar sem þau rifust. Maðurinn sagði konuna hafa hótað honum að meina honum umgengni við börn þeirra og ýtt harkalega við honum þegar hann var á leið út.
Farið fram á mat á sakhæfi
Maðurinn kveðst hafa orðið afar reiður en annað myndi hann ekki. Hann hefur gengist undir geðmat varðandi sakhæfi hans þennan dag. Fram kom við þingfestinguna að til standi að óska eftir yfirmati á því. Verjandi mannsins skýrði frá því að til stæði að taka að óska eftir mati á andlegu ástandi hans ár aftur í tímann.
Verjandinn sagði að í flestum ákæruliðum færi maðurinn fram á sýknu, en til vara að stuðst yrði við 15. grein almennra hegningarlaga. Í henni er fjallað um að séu menn ófærir til að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu, svo sem vegna geðveiki eða samsvarandi ástands, skuli þeim ekki refsað.
Neitar húsbroti og áreitni
Maðurinn er einnig ákærður fyrir stórfellt brot í nánu sambandi gagnvart konunni með því að hafa þremur dögum fyrr farið í heimildarleysi inn í hús hennar, áreitt hana kynferðislega og áður en hún náði að ýta honum frá sér, koma honum úr svefnherberginu en ekki lengra þar sem hann neitaði að yfirgefa húsið.
Maðurinn neitaði því alfarið að hafa áreitt konuna kynferðislega. Hann sagðist hafa verið á heimilinu allan helgina meðan hún var að mestu að heiman. Hann hafi rætt við hana á rúmstokknum eftir að hún kom heim en hún reiðst og hent honum fram á gang þar sem rifrildið hélt áfram. Maðurinn sagði upptöku af hringingu konunnar til Neyðarlínu, sem var virk stóran hluta tímans, sanna frásögn hans.
Konan hefur lagt fram kröfu um að ákærði greið henni sex milljónir króna í miskabætur, auk sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns. Maðurinn sagðist ekki taka afstöðu til bótakröfunnar á þessari stundu.
Hafnar árás á fyrrum félaga
Maðurinn er ákærður fyrir eldra brot, með því að hafa í nóvember 2023 veist að öðrum Vopnfirðingi við iðnaðarhúsnæði sem þeir deildu, slegið hann ítrekað í andlit og líkama, meðal annars með áldós, þannig að gervitennur mannsins brotnuðu og hann hlaut ýmsa áverka og mar á andliti og búk.
Ákærði sagðist hafa farið þangað til að sækja verkfæri sín enda stæðu þeir í deilum um fjármál. Hinn maðurinn hefði rekið áhald í bringu sína og hann hefði orðið mjög reiður. Ákærði kvaðst hafa öskrað á manninn til að reyna að fæla hann frá en hafnaði því að hafa lagt á hann hendur.
Maðurinn fer fram á 750.000 krónur í miskabætur. Ákærði hafnaði bótakröfunni og kom afar ákveðið á framfæri skoðunum sínum á henni. Hann sat þinghaldið í gegnum fjarfundabúnað frá fangelsinu á Hólmsheiði, en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 19. október. Honum var allnokkuð niðri fyrir og tjáði sig reglulega við þinghaldið. Verjandi hans sat á móti í dómssal á Egilstöðum. Fram kom að þeir hefðu ekki náð að fara saman yfir öll gögn málsins, meðal annars vegna fjarlægðar.
Erfði vopnasafn
Að endingu er maðurinn ákærður fyrir vopnalagabrot fyrir að hafa í nóvember 2023 haft á heimili sínu 14 skotvopn sem lögregla fann á veggjum og í tösku, auk fjölda skotfæra sem fundust víða um húsnæðið. Maðurinn hafði ekki gilt skotvonaleyfi, vopnin voru ekki skráð á hann og hann tryggði ekki viðeigandi geymslu þeirra í aðskildum læstum hirslum. Saksóknari fer fram á að vopnin verði gerð upptæk. Um er að ræða átta haglabyssur, fjóra riffla, kindabyssu og afsagaðan riffil.
Maðurinn neitaði sök og útskýrði að uppstaðan í vopnasafninu væri erfðagjöf frá látnum manni sem hann hefði áður hjálpað að gera við skotvopn. Ákærði sagðist hafa leitað til lögreglunnar á Vopnafirði um aðstoð við að fá vopnin skráð á sig vegna seinagangs hjá stofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefðu fæst vopnanna verið í þannig ástandi að hægt væri að nota þau. Við þinghaldið var ákveðið að saksóknari myndi afla frekari gagna um umsóknir mannsins um skráningu vopnanna. Maðurinn benti einnig á að erfðaskrá gefandans væri til skrifleg.
Vill vera vistaður á sjúkrastofnun
Þinghaldi í málinu verður haldið áfram 19. febrúar. Ekkert kom fram í dag um hugsanlega tímasetningu aðalmeðferðar en dómari lét þess getið að hann íhugaði að hafa dóminn fjölskipaðan.
Ákærði er sem stendur í gæsluvarðhaldi til 4. febrúar. Hann tók út hluta varðhaldsins í byrjun á geðdeild vegna andlegs ástands. Í úrskurði Landsréttar um varðhaldið, sem birtur var í vikunni, kemur fram að maðurinn hafi óskað eftir að fá verða vistaður á sjúkrahúsi eða viðkomandi stofnun í stað fangelsisins.
Um miðjan nóvember taldi geðlæknir að maðurinn þyrfti ekki lengur á vistun að halda og var hann þá færður í hefðbundið gæsluvarðhald. Í greinargerð mannsins kemur fram að hann eigi við bæði líkamleg og andleg vandamál í fangelsinu. Læknir og sálfræðingur hafi sinnt honum en verjanda ekki tekist að afla gagna frá þeim áður en héraðsdómur staðfesti varðhaldið. Fyrir Landsrétti lá svar Fangelsismálastofnunar um að hún hefði ekki aðgang að sjúkraskrá, en heilbrigðisstarfsfólk léti vita ef fangar væru of veikir fyrir fangelsi. Engar slíkar upplýsingar hefðu borist um manninn. Þess vegna töldu dómstólar að ekkert lægi fyrir um nauðsyn vistunar mannsins á stofnun, en fylgst væri með heilsufari hans.
Kveðst hafa haft áhyggjur af andlegu ástandi mannsins
Fyrrum sambýliskona mannsins sagðist í viðtali við RÚV í desember í tvö ár hafa haft áhyggjur af versnandi andlegri líðan mannsins, borið hefði á reiðiköstum og afbrýðissemi sem endaði með skilnaði. Hann hafi hins vegar haldið sig í nálægð við hana og loks leigt hús í næsta nágranni. Hún sagði kerfið hafa brugðist og ekki gripið til aðgerða. Síðast að morgni árásardags hefði nálgunarbanni verið hafnað.
Konan var flutt beint á Sjúkrahúsið á Akureyri eftir árásina og dvaldi þar í nokkra daga. Maðurinn var handtekinn og yfirheyrður um kvöldið en sleppt aftur. Hann var handtekinn aftur tveimur dögum síðar og svo úrskurðaður í gæsluvarðhald. Í millitíðinni bárust lögreglu vitnaskýrsla sem tekin var af konunni á sjúkrahúsinu og áverkavottorð.