Hætta á að rafmagnstruflanir haldi áfram í dag
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. nóv 2023 09:25 • Uppfært 07. nóv 2023 09:29
Hætta er á að framhald verði á rafmagnstruflunum í dag. Tvær línur í flutningskerfi Landsnets á Austurlandi eru skemmdar. Rafmagn fór af öllu Austurlandi í um tvo tíma í nótt.
Rafmagn fór fyrst af Fljótsdalshéraði milli 22 og 22:30 í gærkvöldi vegna útleysingar á Fljótsdalslínu 2, sem liggur úr Fljótsdalsstöð yfir í að Hryggstekk í Skriðdal. Rafmagn fór síðan aftur af öllu Austurlandi, frá Teigarhorni norður að Vopnafirði, um klukkan þrjú í nótt. Það aflleysi varði í um tvo tíma.
Orsök raftruflananna eru mikil ísing á línum í byggðalínuhringnum á Norðurlandi og Austurlandi. Í gærkvöldi lauk viðgerð á Kröflulínu 1, milli Kröflu og Akureyrar. Skemmdir eru einnig á línunni milli Akureyrar og Hólasands. Viðgerð bíður vegna anna á Austurlandi.
Teigarhornslína 1 og Fljótsdalslína 2 skemmdar
Á Austurlandi er brotin stæða í Teigarhornslínu 1, sem er milli Hryggstekks og Teigarhorns í Berufirði. Verið er að undirbúa viðgerð á henni.
Fljótsdalslína 2 er mjög löskuð þar sem einangrarar eru brotnir á nokkrum stöðum uppi á Hallormsstaðarhálsi. Með bráðabirgðaviðgerð er hægt að halda rafmagni á henni meðan gert er við Teigarhornslínu. Fljótsdalslínan er hins vegar mjög löskuð og þarfnast frekari viðgerðar. Þess vegna er kerfið viðkvæmt og því hætta á frekari truflunum í dag. Enn er mikil ísing á raflínum.
Þetta leiðir til frekari vandamála í kerfi Landsnets á Austurlandi. Stuðlalína 2, frá Stuðlum í Reyðarfirði til Eskifjarðar, er úti vegna vandamála í tengivirkjum. Norðfjarðarlína 2, um Norðfjarðargöng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, er úti vegna neikvæðra áhrifa hennar á spennu í dreifikerfinu eystra.
Hjá Rarik fengust þær upplýsingar í morgun að engar bilanir væru í dreifikerfi þess á Austurlandi. Rarik hefur gefið út að straumlaust verði í nótt á Borgarfirði, í innsveit og út að Hafnarhólma frá 22-7 vegna dreifikerfi. Við upphaf og endi þeirra aðgerða verður straumlaust í hálftíma á hluta byggðarinnar í Bakkagerði.
Frá Egilsstöðum í rafmangsleysinu í gærkvöldi. Fyrir miðri mynd er húsnæði Rarik með upplýst. Mynd: Unnar Erlingsson