Jón Björn: Einhugur um að slíta samstarfinu

Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokksins í Fjarðabyggð, segir samstöðu hafa ríkt innan flokksins um að slíta samstarfi hans við Fjarðalistann um meirihluta í bæjarstjórn Fjarðabyggðar. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur halda áfram um helgina að kanna forsendur fyrir nýjum meirihluta en formlegar viðræður þar um eru ekki hafnar.

„Við ræddum þetta meðal aðal- og varabæjarfulltrúa og boðuðum svo til fundar með listanum. Menn voru sammála um þetta,“ segir Jón Björn um ákvörðun flokksins um að slíta samstarfinu í gærkvöldi.

Í tilkynningu framboðsins er talað um trúnaðarbrest. Með því er vísað til þess er Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, annar bæjarfulltrúa Fjarðalistans, greiddi atkvæði gegn tillögu um breytingar á skólastofnunum Fjarðabyggðar á aukafundi bæjarstjórnar á þriðjudagskvöld. Hjördís sagði skorta á samráð við breytingarnar og hvatti aðra bæjarfulltrúa til að fella tillögurnar.

Tillögurnar voru afrakstur starfshóps sem oddviti Fjarðalistans, Stefán Þór Eysteinsson, átti sæti í. Þær voru afgreiddar samhljóða úr hópnum sem og bæjarráði. Atkvæði minnihluta Sjálfstæðisflokks tryggðu að tillögurnar voru samþykktar.

Taldi sátt vera komna í málið


Jón Björn segir að mótatkvæðið og hin harða gagnrýni Hjördísar hafi komið honum á óvart. „Ég geri ekki lítið úr því að hver og einn hafi sínar skoðanir en það er mikilvægt að búið sá að ná saman um málin áður en til afgreiðslu kemur. Hvort sem fólk er í flokksstarfi eða meirihluta þá á það sín samtöl um mál og reynir að ná samstöðu og skapa traust. Það er mikilvægt að öll sjónarmið komi fram áður en til atkvæðagreiðslu kemur, ekki síst þegar markmiðið er að ná þverpólitískri sátt.

Það er vont að þá verði brestur. Það sem nú var samþykkt er bara hluti þeirrar vinnu starfshópsins og hann starfar áfram. Það verður frekar rætt og kynnt. En þegar oddvitarnir hafa setið í starfshópnum og sammælst um tillögur vonar maður að um þær sé komin samstaða.“

Aðspurður um hvort rétt hefði verið að bíða lengur með afgreiðsluna svarar hann: „Mögulega hefðum við getað gert það. Tillögurnar voru kynntar skólastjórum síðasta fimmtudag. Þar komu athugasemdir sem tekið var tillit til og síðan gengið frá tillögunum. Ég vissi líka að Hjördís hafði lagt sitt inn þannig ég taldi okkur komin á þann stað að sátt hefði náðst.“

Skólastjórnendur og sveitarfélagið deila


Mótmæli hafa komið úr skólum Fjarðabyggðar í kjölfarið. Skólastjórnendur grunnskóla hafa lýst áhyggjum af lagalegum grundvelli og áhrifum breytinganna. Þeir segja ekkert samráð hafa verið haft né hlustað á þeirra áhyggjur.

Fulltrúar skólastjórnenda, sem áttu þátt í starfshópnum fram að jólum, segja athugasemdir þeirra hafa verið virtar að vettugi. Í þeirra yfirlýsingu er því haldið fram að þeim hafi hvorki verið afhent erindisbréf né haldnar fundargerðir.

Fjarðabyggð sjálf sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem á móti er sagt að gengið hafi verið á eftir því að fá fulltrúa inn í starfshópinn, bæði úr hópi skólastjórnenda og kennara. Fyrir jól hafi fyrsta áfanga vinnunnar lokið og því skipað aftur í hópinn, að þessu sinni aðeins kjörnir fulltrúar. Fundað hafi verið með skólastjórnendum fyrir viku og fullt tillit tekið til þeirra athugasemda. Austurfrétt hefur, á grundvelli upplýsingalaga, óskað eftir gögnum málsins frá Fjarðabyggð.

Telur yfirlýsingar um samráðsleysi fullsterkar


„Það voru fulltrúar skólastjórnenda í starfshópnum. Þegar sviðsmyndir lágu fyrir var málinu vísað til bæjarráðs og kjörnir fulltrúar tóku við. Það var leitað eftir röddum starfsfólks. Þess vegna tel ég yfirlýsingar um samráðsleysi full sterkar. Það er hægt að deila um hvort samráðið hefði átt að vera meira og við hlustum á það en þessar tillögur voru ekki gerðar í neinu tómarúmi.

Samkvæmt erindisbréfi hópsins átti hann að byrja á að skoða ytra starf skólanna en fara síðan í innra starfið. Þar verður samstarf við foreldra, starfsfólk og fleiri því við viljum ræða þessi mál

Ég er meðvitaður um að breytingar mæta gagnrýni. Við hlustum á hana og skoðum í innleiðingarferlinu. Ég tel að kynna þurfi breytingarnar enn betur á næstu dögum. Ég vona að fólk sjái að það eru sóknarfæri í þeim og fagleg styrking. Við ætlum að færa skólaþjónustuna meira út í skólana og með fagstjórum verður til faglegt bakland fyrir skólastjórana og skólana auk þess sem við horfum til meira samstarfs þeirra. Það hefur verið vilji til samstarfsins. Þótt það verði til ein stofnun þá verða áfram starfsstöðvar.

Ræða um meirihluta um helgina


Jón Björn ræddi í dag við Ragnar Sigurðsson, oddvita Sjálfstæðisflokksins, um möguleikana á myndun nýs meirihluta. „Við hittumst og ræddum stöðuna sem uppi er. Við ætlum að ræða saman um helgina og sjáum hvort það leiði til formlegra viðræðna.“

Hann segir viðræðurnar ekki komnar á það stig að flokkarnir séu farnir að draga fram sérstök áherslumál eða embætti. Fyrst verði farið yfir þau mál sem sveitarstjórnin hafi verið samstíga í. „Framsókn hefur lagt áherslu á að rýna reksturinn og styrkja hann til lengri tíma. Það er stöðugt verkefni sem reynir á í þungu umhverfi eins og verðbólgu. Síðan höfum við lagt áherslu á hvert sveitarfélagið og þjónustustofnanir þess stefni. Við horfum til þess að hlúa að atvinnulífinu og fjölga íbúum. Við viljum skapa umhverfi til að byggja meira íbúðarhúsnæði því við höfum innviði til að taka á móti fleira fólki.“

Merkja hefur mátt erjur milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórninni, að minnsta kosti frá síðustu kosningum. Jón Björn segir að þær eigi ekki að koma í veg fyrir myndun meirihluta. „Sveitastjórnum ber að starfa til fjögurra ára, það er enginn möguleiki á aukakosningum eins og á Alþingi. Þótt við tökumst á og tilheyrum mismunandi flokkum þá fylgir það stjórnmálunum ef það er á málefnalegum grunni. Við sjáum hvert samtalið leiðir, vonandi getum við sett okkur sameiginleg markmið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.