Ragnar Sigurðsson: Útilokum ekkert í meirihlutaviðræðum
Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Fjarðabyggðar, segist ekki hafa átt von á að meirihluta Framsóknarflokks og Fjarðalista yrði slitið vegna deilna út af ákvörðun um skólamál á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ræða stöðuna í dag en Ragnar segir ekkert útilokað þegar kemur að myndun nýs meirihluta.„Við eigum í dag samtal við Framsóknarflokkinn um þá stöðu sem er uppi. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar um meirihlutaviðræður. Ég á eftir að funda með mínu baklandi.
Dagurinn í dag fer í þessi samtöl og við sjáum hvert það leiðir. Við verðum að leysa stöðuna því það verður að vera starfandi meirihluti í Fjarðabyggð þótt í bili haldi fólk sínum embættum og málin séu í farvegi.
Við erum opin fyrir öllu. Við höfum aldrei útilokað neitt samstarf í sveitastjórnarmálum. Það hafa áður verið í útilokunarpólitík. Við eigum eftir að sjá hver staðan er í báðum flokkum og taka síðan ákvörðun um meirihluta viðræður. Næstu klukkustundir og dagar fara í það,“ segir Ragnar.
Sannfærður um að breytingarnar í fræðslumálum verði til góðs
Meirihlutinn í Fjarðabyggð klofnaði á þriðjudag í atkvæðagreiðslu um breytingar á skólamálum þar sem samþykkt var að sameina skólana eftir skólastigum en halda áfram í starfsstöðvar í hverjum byggðakjarna. Annar fulltrúa Fjarðalistans, Hjördís Selja, greiddi atkvæði gegn breytingunni. Oddviti listans, Stefán Þór Eysteinsson, sat í starfshópnum sem mótaði tillögurnar og greiddi atkvæði með þeim í bæjarráði.
Hörð gagnrýni hefur komið fram á samþykktina. Í gær lýstu skólastjórnendur í Fjarðabyggð efasemdum um að hún standist lög og sögðu athugasemdir þeirra hafa verið hundsaðar. Ragnar segist enn heilshugar að baki ákvörðuninni.
„Ég er sannfærður um hana og legg áherslu á að við tökum samtalið áfram. Við tókum þessa ákvörðun fyrir örfáum dögum og gefum okkur mánuð til áframhaldandi samtals. Það var tekið samtal við skólastjórnana, hlustað og tekið tillit til þeirra athugasemda að einhverju leyti. Ég er sannfærður um að þessar breytingar verði til góðs fyrir sveitarfélagið með tíð og tíma.“
Átti ekki von á slitunum
Ragnar lýsti á fundinum furðu sinni á gagnrýni Hjördísar þar sem hann sagðist hafa talið að unnið væri að þverpólískri sátt í málinu. Hann kveðst þó ekki hafa reiknað með meirihlutaslitum.
„Ég gerði mér grein fyrir að ósamstaðan í ákvörðuninni myndi skaða meirihlutann en átti ekki von á að honum yrði slitið. Það kemur þó kannski ekki á óvart í ljós alls þess sem áður er á undan gengið. Þessi gagnrýni á fundinum kom mér á óvart því flokkarnir allir höfðu lagt á það áherslu að fara í þessar breytingar í fræðslumálunum í mikilli og góðri sátt. Þess vegna skil ég afstöðu Framsóknar.“
Útilokar ekki Fjarðalistann
Ragnar segir ekki að ósamstaða innan Fjarðalistans á þriðjudag útiloki meirihlutaviðræður við hann. „Við útilokað ekki neitt heldur tökum samtalið þar sem þau geta skýrt sína afstöðu og framkomu gagnvart minnihlutanum. Ég veit ekki hvað fór fram innan meirihlutans. Við heyrum í Framsóknarflokknum og sjálfsagt fleirum.“
Framboðin í Fjarðabyggð hafa oft tekist duglega á, bæði innan fundar og utan. Ragnar telur þó hægt forsendur til staðar til að mynda traustan meirihluta. „Ég hef alla tíð treyst mér til að vinna með öllum þeim fulltrúum sem sitja í bæjarstjórn. Við höfum deilt harkalega en að mínu mati í bróðerni. Það hefur aldrei verið óvinskapur innan bæjarstjórnar. Við höfum alla tíð getað sest niður og rætt málin.“
Áhersla á breytingar í rekstri
Sjálfstæðisflokkurinn fékk í sveitarstjórnarkosningunum 2022 fjóra fulltrúa, Framsóknarflokkurinn þrjá og Fjarðalistinn tvo. Fjarðalistinn tapaði þar tveimur fulltrúum en Framsókn bætti einum við sig þannig að meirihlutinn hélt þótt hann minnkaði úr sex fulltrúum í fimm.
Ragnar segir að Sjálfstæðisflokkurinn leggi í meirihlutaviðræðum áherslu á stefnumál sín úr kosningunum. „Við höfum lagt áhersluá breytingar. Það þarf að laga reksturinn þannig að hægt sé að stíga mikilvæg skref í að hlúa að mannvirkjum og innviðum sveitarfélagsins. Nú setjumst við niður, förum yfir stöðuna og rekstur sveitarfélagsins til að sjá hvernig flokkarnir sem mögulega kæmu til samstarfs væru tilbúnir að horfa á hvað þarf til að laga reksturinn og fara í kröftuga uppbyggingu til framtíðar.“
Aðspurður segir Ragnar að Sjálfstæðisflokkurinn geri enga kröfu um ákveðin embætti, hvorki bæjarstjórastól né önnur.