Mjög þungfært inn í Snæfellsskála

Landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs eru komnir aftur inn í Snæfellsskála eftir að hafa farið þaðan á föstudag eftir mikla snjókomu. Vegurinn þangað er aðeins fær breyttum jeppum.

„Á veginum er 20-30 sm. þykkur snjór, mjög blautur og þungur,“ segir Martína Ýr, landvörður í Snæfellsskála.

Eins og Austurfrétt greindi frá fyrir helgi moksnjóaði þar á fimmtudag og föstudag. Björgunarsveitir voru kallaðar út eftir hádegi á föstudag til að bjarga ferðalöngum sem festust. Meðal annars lentu landverðir í vanda á sínum bíl. Ákveðið var að þeir færu til byggða og var svæðið lýst ófært í kjölfarið.

Martina segir að þá hafi snjórinn verið orðinn um 50 sm. þykkur. Eitthvað hafi síðan snjóað á laugardag en annars sé greinilegt að blotað hafi í snjónum og hann sigið. Annars sé erfitt að bera saman aðstæður því skyggnið á föstudag hafi verið afleitt.

Vegurinn inn að Snæfelli er aðeins talinn færi breyttum jeppum en ekki jepplingum. Hann er hins vegar nokkuð greinilegur, nýjar stikur frá í fyrra eru á sínum stað og komin för eftir bíla.

Leiðin frá Snæfellsvegi að Kárahnjúkum er merkt fær fjallajeppum, sömuleiðis um Brúardali og inn í Kverkfjöll. Jónatan Hrafn Daníelsson, landvörður í Kverkfjöllum, segir að allt í kringum Sigurðarskála sé hvít jörð og 5 sm. snjór sem hafi ekki tekið upp yfir helgina. Þokkalega fært virðist inn að skála og vonast Jónatan til að þangað verði greiðfært á næstu dögum. Illfært er hins vegar inn að jöklinum og verður trúlega eitthvað áfram. Greinileg snjóalög eru í um 800-900 metra hæð.

Myndir úr Snæfelli: Martina Ýr.

Mynd úr Kverkfjöllum: Jónatan Hrafn.

snaefellsskali 20240826 2 martina

kverkfjoll 20240826 jonatanhrafn web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.