Mjög þungfært inn í Snæfellsskála
Landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs eru komnir aftur inn í Snæfellsskála eftir að hafa farið þaðan á föstudag eftir mikla snjókomu. Vegurinn þangað er aðeins fær breyttum jeppum.„Á veginum er 20-30 sm. þykkur snjór, mjög blautur og þungur,“ segir Martína Ýr, landvörður í Snæfellsskála.
Eins og Austurfrétt greindi frá fyrir helgi moksnjóaði þar á fimmtudag og föstudag. Björgunarsveitir voru kallaðar út eftir hádegi á föstudag til að bjarga ferðalöngum sem festust. Meðal annars lentu landverðir í vanda á sínum bíl. Ákveðið var að þeir færu til byggða og var svæðið lýst ófært í kjölfarið.
Martina segir að þá hafi snjórinn verið orðinn um 50 sm. þykkur. Eitthvað hafi síðan snjóað á laugardag en annars sé greinilegt að blotað hafi í snjónum og hann sigið. Annars sé erfitt að bera saman aðstæður því skyggnið á föstudag hafi verið afleitt.
Vegurinn inn að Snæfelli er aðeins talinn færi breyttum jeppum en ekki jepplingum. Hann er hins vegar nokkuð greinilegur, nýjar stikur frá í fyrra eru á sínum stað og komin för eftir bíla.
Leiðin frá Snæfellsvegi að Kárahnjúkum er merkt fær fjallajeppum, sömuleiðis um Brúardali og inn í Kverkfjöll. Jónatan Hrafn Daníelsson, landvörður í Kverkfjöllum, segir að allt í kringum Sigurðarskála sé hvít jörð og 5 sm. snjór sem hafi ekki tekið upp yfir helgina. Þokkalega fært virðist inn að skála og vonast Jónatan til að þangað verði greiðfært á næstu dögum. Illfært er hins vegar inn að jöklinum og verður trúlega eitthvað áfram. Greinileg snjóalög eru í um 800-900 metra hæð.
Myndir úr Snæfelli: Martina Ýr.
Mynd úr Kverkfjöllum: Jónatan Hrafn.