Skip to main content

Óvissustigi aflétt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. feb 2024 08:04Uppfært 13. feb 2024 08:06

Veðurstofan aflétti í morgun óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum. Engar tilkynningar bárust um snjóflóð í gær. Fjarðarheiði er enn ófær en undirbúið að opna hana.


Óvissustigið var sett á í gærmorgunn eftir mikla snjókomu á Seyðisfirði um nóttina. Talin var hætta, einkum í Strandartindi, þótt ekki væri búist við flóðum sem færu hratt eða langt.

Engar tilkynningar bárust um snjóflóð í gær. Hins vegar eru tvö snjóflóð skráð á Norðfirði á laugardag, annað úr Drangagili og hitt úr Sniðgili. Þau voru lítil. Veðrið er nú gengið niður og hættan talin úr sögunni.

Fjarðarheiði er enn ófær en undirbúið að opna hana. Mikill snjór er á henni eftir snjókomu síðustu daga. Þæfingur er á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði og kóf. Snjóþekja er á Fljótsdalshérað, hált á fjörðum en greiðfært sunnan Breiðdalsvíkur.