Skip to main content

Rýmt á Seyðisfirði og í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. apr 2024 19:33Uppfært 06. apr 2024 21:09

Veðurstofan hefur ákveðið að rýma hús á Seyðisfirði og í Neskaupstað frá klukkan tíu í kvöld vegna hættu á snjóflóðum.


Á Seyðisfirði eru rýmdir reitir 17 og 18 sem eru út með firðinum norðanverðum. Búið er í þremur húsum, Ránargötu 8, 9 og 11. Húsið með númerið níu er betur þekkt sem Farfuglaheimilið Hafaldan.

Í Neskaupstað er rýmt á svæði fjögur. Það liggur frá innri enda snjóflóðavarnagarðanna og inn fyrir ofan athafnasvæði Síldarvinnslunnar. Á þessu svæði eru fyrst og fremst iðnaðarsvæði en einnig hesthúsin. Þrastarlundur er einnig innan svæðisins.

Lögreglan vinnur að því að hafa samband við fólk sem hefst við á þessum svæðum.

Gripið er til rýmingarinnar vegna vondrar veðurspár. Gul viðvörun vegna norðaustan hríðar gekk í gildi klukkan sex í kvöld. Búist er við talsverði snjókomu til viðbótar við sjóinn sem fallið hefur síðustu vikur og skapað snjóflóðahættu víða til fjalla. Ekki er gert ráð fyrir að úrkomunni sloti fyrr en á mánudag.

Vegunum um Vopnafjarðarheiði og Möðrudalsöræfi var lokað á fimmta tímanum í dag og leiðinni yfir Fjarðarheiði skömmu síðar. Vegir á rýmdu svæðunum eru opnir fyrir umferð en íbúar eru hvattir til að vera ekki á ferðinni nema nauðsynlegt sé og fylgjast með upplýsingum um færð og veður. Varðskipið Þór verður til taks við Austfirði.

Veðurstofan og almannavarnir funduðu um klukkan sjö í kvöld. Fundað verður aftur klukkan níu í fyrramálið og nánari upplýsingar gefnar út að honum loknum. Ekki er gert ráð fyrir frekari rýmingum í kvöld en Veðurstofan fylgist með þróuninni allan sólarhringinn. Ekki er talin hætta utan rýmdra svæða.

Þeim, sem finna fyrir ónota vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru, er bent á að hjálparsími Rauða krossins, 1717, er opinn allar sólarhringinn.

Á vef Fjarðabyggðar má sjá kort af rýmingarsvæðunum.