Skip to main content

Segja þjónustusamninginn hafa átt sér langan aðdraganda

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. jún 2024 09:17Uppfært 16. jún 2024 09:19

Isavia Innanlandsflugvellir ehf., hafna því að rokið hafi verið til í skyndi til að gera nýjan þjónustusamning við innviðaráðuneytið til að tryggja heimildir til gjaldtöku á bílastæðum. Ákvæði um slíkt var þó styrkt við það tilefni.


Fyrirtækið tilkynnti í janúar að til stæði að taka upp gjaldtöku á bílastæðum við flugvellina á Egilsstöðum og Akureyri. Því var frestað eftir mótmæli.

Í lok maí var hins vegar tilkynnt að gjaldtakan væri fyrir dyrum. Hún hefst á þriðjudag, 18. júní. Einu breytingarnar eru að einnig er tekin upp gjaldtaka við Reykjavíkurflugvöll og frítt er að leggja í fimm tíma í stað fimm mínútna.

Jón Jónsson, lögmaður á Egilsstöðum, hefur ritað greinar á Austurfrétt þar sem hann hefur lýst efasemdum um heimildir fyrirtækisins til gjaldheimtunnar auk þess sem hann vann í síðustu viku lögfræðiálit fyrir Múlaþing þar sem þær eru enn frekar dregnar í efa.

Jón hefur meðal annars lýst því að heimildir skorti í samningum ríkisins við Isavia, þar sem Isavia sé aðeins umsjónaraðili flugvallanna og þeirra mannvirkja sem þeim tengjast en ríkið eigandi þeirra.

Tíu dagar er síðan nýr þjónustusamningur var undirritaður. Á fundi sveitarstjórnar Múlaþings í síðustu viku sögðu fulltrúar samninginn hafa verið gerðan í „í leyni“ og furðuðu sig á því að skrifað væri undir hann í því andrúmslofti sem ríkti.

Af þeim sökum hefur Isavia komið fram áréttingu, eins og tekið var fram í fréttum Austurfréttar á föstudag, að fyrri samningur hafi runnið út um síðustu áramót. Bætt er við að nýi samningurinn hafi verið tilbúinn til undirritunar í febrúar. Um sé að ræða hefðbundna endurnýjun sem sé afrakstur vinnu sem hófst fyrri part síðasta vetrar.

Í svari við spurningu Austurfréttar segir að ákvæði hafi verið til gjaldtöku á bílastæðum í fyrri samningi en skerpt á því í þeim nýja.