Segjast ekki tilbúnir að taka þátt í að innleiða áætlaðar breytingar á fræðslumálum
Stjórnendur í grunnskólum Fjarðabyggðar lýsa sig enn mótfallna áformum bæjarstjórnar Fjarðabyggðar um breytingar á skipan fræðslumála í sveitarfélaginu. Þeir telja að hefja ætti breytingaferlið nánast á ný.Þetta kemur fram í erindi sem skólastjórarnir sendu frá sér eftir samþykkt bæjarráðs á þriðjudag og Austurfrétt hefur undir höndum. Með henni var umdeildum breytingum, sem samþykktar voru í bæjarstjórn í lok febrúar, frestað um að minnsta kosti ár. Tillögurnar gerðu meðal annars ráð fyrir sameiningu grunnskólanna í einn og að störf deildarstjóra sérkennslu og aðstoðarskólastjóra yrðu lögð niður eða breytt verulega.
Samkvæmt samþykkt bæjarráðs nú á að skiparýni hóp með fulltrúum sveitarfélagsins og skólastjórum grunnskólanna sem geri tillögu um innleiðingu breytinganna fyrir skólaárið 2025-26.
Frestuninni fagnað í yfirlýsingu skólastjóranna en þeir minna á að þeir hafi ítrekað lagst gegn tillögunum frá í vetur og bent á að „sú einsleita leið, sem þar er lögð fram til hagræðingar, dragi úr faglegu starfi skólanna og rýri sjálfstæði þeirra.“ Þeir lýsa vonbrigðum með að tillagan sé ekki dregin til baka.
Þeir segjast einnig hafa bent á að farsælla væri að ígrunda með skólasamfélaginu öllu hvar best væri að hagræða, miðað við þörfina eins og hún er í dag. Bætt er við að skólaráð grunnskóla og foreldraráð leikskóla hafi líka gagnrýnt tillögurnar og kallað eftir frekari útskýringum á þeim.
Þá er rifjað upp að Mennta- og barnamálaráðuneytið hafi gert bæjarstjórn að taka málið fyrir aftur þar sem ekki hafi verið farið að lögum um samráð í fyrra skiptið. Til viðbótar við lögbundið samráð við skóla- og foreldraráð þurfi að ræða við nemendur, foreldra og starfsfólk. Ráðuneytið taldi hins vegar áætlaðar breytingar standast lög að öðru leyti og áform um styrkingu miðlægrar skólaþjónustu væri í samræmi við stefnu þess og farsældarlög.
Telja tillögurnar veikja skólastarfið
Eftir að svör mennta- og barnamálaráðuneytisins við athugasemdum Kennarasambands Íslands við ferlið bárust í lok apríl hafa tillögurnar verið sendar til umsagnar. Fundað var með skólastjórum tvisvar í síðustu viku. Skólastjórarnir segjast ætíð tilbúnir í samráð um breytingar á fræðslumálum til að efla skólastarf og nýta fjármuni sem best. Þeir telji tillögurnar frá í vetur hins vegar veikja skólastarf og þess vegna vilji þeir ekki þurf að vinna í stýrihópi sem ætlað sé að innleiða þær. Þeir séu hins vegar tilbúnir að sitja í stýrihópi sem myndi leiða vinnu um víðtækt samráð við skólasamfélagið allt í Fjarðabyggð.
Í minnisblaði sviðsstjóra fjölskyldusviðs og bæjarstjóra frá fundunum í síðustu viku segir að umræður á þeim hafi verið góðar og lýst von um að með tillögunni yrði byggt enn frekar undir farsælt skólastaf til framtíðar í Fjarðabyggð.
Á þriðjudag var ákveðið að halda áfram með sameiningu tónskóla Fjarðabyggðar í einn fyrir næsta skólaár með minniháttar breytingum. Breytingum á leikskólum er frestað til áramóta og tíminn nýttur til að fara nánar yfir þær.