Slit meirihlutasamstarfsins kom Hjördísi Helgu á óvart

Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, fulltrúi Fjarðarlistans, sem greiddi mótatkvæði það á bæjarstjórnarfundi á þriðjudagskvöld sem varð kveikjan að slitum meirihlutans í Fjarðabyggð segir slitin vissulega hafa komið á óvart. Meirihlutasamstarfið við Framsóknarflokkinn hafi að langmestu leyti gengið afar vel hingað til.

„Þetta kom mér á óvart vissulega. Samstarf okkar og Framsóknarflokks gengið mjög vel. Við alltaf átt mjög gott samstarf og við gengið gegnum ýmislegt saman sem meirihluti.“

Aðspurð um þá ákvörðun sína að greiða atkvæði gegn tillögu um skipulagsbreytingar á skólastarfi í sveitarfélaginu þrátt fyrir að samkomulag hafi náðst meðal allra aðila, það með talið oddvita Fjarðarlistans, um þá tilhögun á samráðsfundi fyrir bæjarstjórnarfundinn segir Hjördís ummæli sín á fundinum skýra þá ákvörðun. Mikið hafi skort á samráði við skólana sjálfa og skipulagsbreytingin myndi að hennar mati ekki vera til framfara. Í kjölfar samþykktar bæjarstjórnar sendu grunnskólastjórnendur í sveitarfélaginu frá sér tilkynningu þar sem ákvörðunin var gagnrýnd harðlega.

Hjördís var fámál um stöðuna á þessu stigi en Framsóknarflokkur mun ræða meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokk til að byrja með og báðir bæjarfulltrúar Fjarðarlistans gætu því endað í minnihluta í fyrsta skipti um sex ára skeið gangi þær viðræður vel. Fjarðarlistinn sé þó opin fyrir öllum möguleikum og þar með samstarfi við Sjálfstæðisflokk ef sú staða komi upp.

„Við höfum alltaf verið opin fyrir slíku og alltaf talað fyrir góðu samráði og samtölum og vinnum enn samkvæmt því.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.