Stefán Þór Eysteinsson: Hefur ekki áhrif á samvinnuna innan Fjarðalistans

Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar, segir það hafa verið óvænt og vonbrigði þegar Framsóknarflokkurinn sleit meirihluta samstarfi flokkanna í gærkvöldi. Hann segir samvinnuna innan Fjarðalistans enn góða þótt hann hafi klofnað í atkvæðagreiðslu í bæjarstjórn á þriðjudag.

„Ég játa að þetta eru ákveðin vonbrigði. Að okkar mati hefur samstarfið verið mjög gott. Það hafa komið upp ýmis mál en við höfum staðið saman í þeim. Þess vegna kemur þetta á óvart,“ segir Stefán Þór.

Breytingarnar á fræðslustofnunum Fjarðabyggð fela í raun í sér að skólarnir verða sameinaðir eftir skólastigum. Það var gert að tillögu starfshóps um fræðslumál sem Stefán Þór sat í. Hjördís Helga Þóroddsdóttir Seljan, annar fulltrúi Fjarðalistans greiddi atkvæði gegn tillögunum á fundi bæjarstjórnar og gagnrýndi skort á samráði við skólasamfélagið.

Stefán Þór segir að það eigi ekki að hafa áhrif á samstarfið innan Fjarðalistans þótt fulltrúarnir hafi verið ósammála í þessu máli. „Staða Fjarðalistans er góð. Við Hjördís höfum starfað mjög vel saman. Þetta mun ekki hafa áhrif á það. Við höfum rætt saman síðustu daga og velt fyrir okkur stöðunni.“

Tillögunum breytt eftir ábendingar í ferlinu


Stefán kveðst hafa vitað af gagnrýni Hjördísar á starf hópsins og henni hafi verið komið á framfæri inn í vinuna. „Hún hafði rætt sínar áhyggjur af vinnunni út frá sinni sannfæringu. Þeim var sannarlega skilað inn í hópinn. Tillagan hefur tekið breytingum að hluta vegna þeirra okkar áhyggja. Starfshópurinn vann að því að ná sem mestri sátt við alla.“

Eftir að tillagan var samþykkt hafa komið fram yfirlýsingar frá bæði skólastjórnendum í Fjarðabyggð sem og fulltrúum stjórnenda, sem sátu í starfshópnum þar til breytingar urðu á honum um áramót, þar sem þeir segja að athugasemdir þeirra hafi verið hundsaðar.

Stefán Þór hafði ekki séð yfirlýsingarnar þegar Austurfrétt ræddi við hann í morgun. „Þegar breytingar eru boðaðar er eðlilegt að þær séu vandlega skoðaðar og eðlilegt að fram komi athugasemd. Hefði kannski mátt kynna betur hvað nákvæmlega fælist í breytingunum. Við lögðum upp með það í starfshópnum að taka tillit til allra þeirra athugasemda sem bærust. Hugsunin hefur alla tíð verið að horfa til faglega starfsins.“

Stefán Þór segir að breytingarnar sem samþykktar voru á þriðjudaginn hafi aðeins verið áfangi á vegferðinni og frekara samráð alltaf fyrirhugað. „Breytingar sem þessar eru ekki einfaldar og taka tíma. Starfshópurinn lagði alltaf lagt upp með að þær yrðu nánar útfærðar með þeim í hlut eiga. Þeirri vinnu er alls ekki lokið.“

Hann segir fulltrúa Fjarðalista og Framsóknarflokks hafa rætt saman frá því að bæjarstjórnarfundinum lauk og þar til samstarfinu var slitið í gærkvöldi. „Það voru mörg samtöl og góð.“

Ekkert útilokað um meirihluta


Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ræða í dag möguleika á myndum nýs meirihluta. Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, kvaðst í samtali við Austurfrétt fyrr í dag ekki útiloka neinn meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjóra fulltrúa í bæjarstjórninni, Framsóknarflokkurinn þrjá og Fjarðalistinn tvo.

Stefán Þór segist ekkert útilokað í stöðunni. „Við myndum alltaf taka samtalið og ræða það í okkar baklandi. Við sjáum hvað kemur út úr þeirra samtali og berum virðingu fyrir því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.