Viðbúið að taugakerfið taki langan tíma að jafna sig eftir snjóflóðin
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. apr 2023 10:43 • Uppfært 25. apr 2023 10:49
Þó nokkur hópur fólks hefur leitað stuðnings til að takast á við sálrænar afleiðingar snjóflóða og hættuástands á Austfjörðum í lok mars. Eðlilegt að atburðir sem snjóflóðin sitji lengi í taugakerfi fólks og afleiðingarnar komi fram smám saman.
„Það er talsverður hópur af fólki sem hefur leitað til okkar, bæði frá Seyðisfirði og úr Neskaupstað. Þar fór ýmislegt í gang,“ segir Sigurlín Hrund Kjartansdóttir, sálfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.
Sigurlín verður með erindi á fræðslufundi sem HSA og Fjarðabyggð standa fyrir í Egilsbúð í Neskaupstað klukkan 17:00 í dag um viðbrögð við áföllum. Fundurinn er haldinn í kjölfar snjóflóðanna þar fyrir mánuði sem jafnframt ýfðu upp minningar eftir snjóflóðin mannskæðu þar í desember 1974.
Ýfir upp eldri minningar
Annar frummælandi á fundinum er Guðrún Smáradóttir sem hefur sagt frá því að henni hafi þótt afar erfitt að koma inn í fjöldahjálparmiðstöðina í Egilsbúð þangað sem fólk sem rýma þurfti heimili sín leitaði bæði nú og 1974. Í bæði skiptin féll snjóflóð rétt hjá heimili Guðrúnar.
„Við höfum rannsóknir um að fyrri áföll gera vart við sig þegar nýir atburðir verða. Það er eflaust hópur í Neskaupstað sem finnur meira fyrir afleiðingum eldri flóðanna. Fyrir þann hóp er mikilvægt að vita að það er aldrei of seint að vinna úr málum með aðstoð fagaðila,“ segir Sigurlín.
Viðbrögðin eru ósjálfráð
Sálræn aðstoð eftir náttúruhamfarir er veitt í nokkrum þrepum. Rauði krossinn veitir fyrstu sálrænu hjálpina sem og prestar svæðisins en þessari aðilar ásamt HSA og almannavörnum og félagsþjónustu mynda samráðshóp um áfallahjálp á Austurlandi. Hópurinn hefur fundað reglulega í kjölfar snjóflóðanna og mun gera það áfram.
Þegar líður frá atburðinum færist stuðningurinn á næsta stig sem er hin eiginlega áfallahjálp. „Hún er fyrirbyggjandi íhlutun sem hjálpar fólki að skilja líðan sína og veita fræðslu um hvernig hægt er að takast á við eðlileg áfallastreituviðbrögð eftir. Svona harkalegir atburðir, sem ógna lífi fólks, valda miklum viðbrögðum sem geta setið lengi í taugakerfinu.
Sama svæði í heilanum stjórnar þessum viðbrögðum og meltingu og öndun. Við finnum óþægindi og trúum vart hvernig okkur líður en höfum enga stjórn því viðbrögðin eru svo ósjálfráð. Það aftur getur haft áhrif á sjálfsmynd okkar. Alvarleg persónuleg áföll eru orðin sjaldgæfari en áður þannig að viðvörunarkerfi okkar fer síður í gang. Við erum ekki vön svona aðstæður og því eðlilegt að það taki tíma að takast á við þær.
Það má gera ráð fyrir að fólk finni áfram fyrir streituviðbrögðum næstu vikur og mánuði. Ef svo er þarf jafnvel að hjálpa fólki að komast til fagaðila í einhvers konar úrvinnslumeðferð. Þá er um að ræða áfallameðferð frekar en áfallahjálp. Oft er ekki ljóst fyrr en 2-3 mánuðum eftir atburð hver þörfin er og það er viðbúið að eitthvað taki sig upp aftur þegar byrjar að snjóa næsta vetur,“ segir Sigurlín.
Á fundinum í dag verður farið yfir dæmi um hver einkennin eru sem fólk finnur fyrir og hvert hægt sé að leita eftir aðstoð. „Við höfum fengið nokkrar fyrirspurnir síðustu vikur á netfang sem við opnuðum,
Mynd: Landsbjörg