Vill að fallið verði frá breytingum á skólum Fjarðabyggðar fyrir næsta skólaár

Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, bæjarfulltrúi Fjarðalistans í Fjarðabyggð, vill að bæjarfélagði gefi það út að ekki verði farið í fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á skólum sveitarfélagsins fyrir næsta skólaár. Hún óttast að áformin hafi þegar haft þau áhrif að margt fagfólk hafi ákveðið að hætta. Formaður bæjarráðs segir slíkar yfirlýsingar ótímabærar.

Bæjarstjórn samþykkti í lok febrúar breytingar á skólum sveitarfélagsins, sem í grófum dráttum fólu það í sér að þeir yrðu sameinaðir eftir skólastigum, aðstoðarskólastjórum og deildarstjórum sérkennslu sagt upp en ráðnir inn sérfræðingar til skólaþjónustu.

Áformunum var strax mótmælt. Hjördís Helga gagnrýndi áformin harðlega á bæjarstjórnarfundinum, sagði skorta á samráð og þær væru ekki líklegar til árangurs. Hún hvatti til þess að fallið yrði frá þeim en greiddi ein atkvæði gegn þeim. Það varð til þess að meirihluti Fjarðalista og Framsóknarflokks sprakk en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn mynda meirihluta í dag.

Kennarasamband Íslands óskaði eftir áliti mennta- og barnamálaráðuneytisins. Það taldi breytingarnar skipulagslega í lagi en taldi Fjarðabyggð hafa brotið lög með að hafa ekki víðtækara ákvörðun. Þar sem þær væru ekki komnar til framkvæmda skyldi bæjarstjórn taka málið aftur fyrir að fengnum umsögnum.

Mikið vantraust innan skólasamfélagsins


Álit ráðuneytis var til umræðu á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. „Sú óvissa sem verið hefur undanfarnar vikur hefur dregið dilk á eftir sér. Vantraustið er mikið innan skólasamfélagsins og útlit fyrir að margt gott starfsfólk hætti, verði farið í þessar breytingar eru. Því miður er flótti fagfólks úr skólunum þegar hafinn og ég tel að það stefni í óefni. Því tel ég að við hér í bæjarstjórn þurfum að spyrna við fótum og það hratt.

Ég tel skynsamlegast að draga þessa tillögu til baka og senda strax skýr skilaboð út í samfélagið um óbreytt fyrirkomulag á skólastarfi í Fjarðabyggð næsta skólaár. Við nýtum síðan tímann næstu mánuði í gott og uppbyggilegt samráð við alla aðila skólasamfélagsins. Ég er sannfærð um að með því þá getum við fengið nýjar og góðar tillögur,“ sagði Hjördís á fundinum í síðustu viku.

Ný biðstaða með að draga tillöguna til baka


Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs, vildi ekki ráðast í slíkar yfirlýsingar. „Ég tek undir að við þurfum að vinna það (samráðið) vel en mér finnst ótímabært að segja að við ætlum að hætta við allt saman og hefja einhvers konar biðstöðu.“

Ragnar rifjaði upp feril málsins, að skipaður hefði verið starfshópur í október, hann fundað og skilað vinnu sem unnin var áfram. Fjarðalistinn hefði þá verið í meirihluta og því átt hlut í að leiða málið. Þá hafi verið stefnt að fullri pólitískri sátt, því vitað væri að breytingar í skólamálum gætu orðið umdeildar.

„Við töldum okkur vera að fara hófsama leið af þeim sviðsmyndum sem voru fyrir framan okkur. Við álitum þessa líklegasta til sátta. Við töldum einingu vera innan bæjarstjórnar, alveg þar til flautað var til leiksloka. Það var haldinn kynningarfundur fyrir alla bæjarfulltrúa þar sem þeir gátu komið með spurningar og athugasemdir og haft áhrif á málið. Ég varð ekki var við að núverandi minnihluti legði áherslu á að við seinkuðum málinu, það kom að minnsta kosti ekki fram á þeim fundi.“

Mikilvægt að gefa samráðinu tíma


Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans sem var formaður bæjarráðs þegar málið var tekið fyrir, minnti á að Fjarðalistinn hefði ekki farið fyrir málinu. Hann sagði að í dag viðurkenndu flestir þeir sem sæti hefðu átt í seinni starfshópnum um málið, sem eingöngu var skipaður kjörnum fulltrúum, að samráðið hefði mátt vera meira.

Þess vegna væri mikilvægt að vanda til verka í næstu atrennu. „Ég tel það sé gríðarlega mikilvægt að við hlustum á þá hagsmunaaðila sem rætt er við varðandi breytingarnar og tillit sé tekið til þeirra þannig að samráðið verði með þeim hætti að allir geti gengið sáttir frá borði.“

Jón Björn Hákonarson, oddviti bæjarstjórnar, sagði fulla ástæðu til að allir aðilar gætu sér til að ræða málin. Hann minnti á að breytingar í fræðslumálum hefðu að einhverju leyti verið ræddar inni í bæjarstjórn á bæði þessu kjörtímabili og síðasta því skólastarf yrði að þróast í takti við þjóðfélagið.

Hann sagði sveitarstjórnarfulltrúa í Fjarðabyggð aldrei hafa ætlað sér annað en búa vel að skólastarfi og fjölskyldum. Það endurspeglaðist í því hvernig sveitarfélögin hefðu staðið að baki grunnskólunum frá því þau tóku við þeim frá ríkinu fyrir 30 árum.

Samráðsferlið er nú að fara af stað, Fjarðabyggð hefur sent frá sér kynningarefni og byrjað er að funda um málið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar