Tveir mættu til að kaupa ódýr fargjöld: Engar myndir bárust af þríhyrnda hreindýrinu
Tveir einstaklingar hlupu apríl í boði Austurfréttar í gær þegar þeir mættu á flugvöllinn á Egilsstöðum til að reyna að tryggja sér ódýr fargjöld. Að auki sögðum við frá þríhyrndu hreindýri sem héldi til á Völlum og væri líffræðilega einstakt.Austurfrétt birti tvær gabbfréttir í gær. Annars vegar var því haldið fram að Flugfélag Íslands byði upp á tilboð á flugfargjöldum á milli Egilsstaða og Reykjavíkur eftir langan vetur en þau væru einungis bókanleg á Egilsstaðaflugvelli.
Tveir munu hafa mætt á völlinn, komnir mislangt að. Ekki virðast margir hafa látið glepjast af fréttinni en heitar umræður urðu á samfélagsmiðlum.
„Þjóðtrúin segir að menn þurfi að hlaupa yfir þrjá þröskulda til að aprílhlaup teljist fullgilt. Ýmiss konar tilboð hafa verið vinsæl göbb á fyrsta apríl og í ljósi mikillar umræðu um flugfargjöldin að undanförnu fannst okkur þetta tilvalið," segir Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar.
Þá greindum við í gær frá því að þríhyrnt hreindýr hefði sést á Völlum og óskað var eftir myndum af því. Engar myndir munu hafa borist en einn fréttamaður mun hafa hringt í hreindýrasérfræðinginn, sem tók þátt í spunanum, og spurt um dýrið. Sá áttaði sig hins vegar á hvernig í pottinn var búið á meðan símtalinu stóð.