Skip to main content

„Ég er nú samt ekki nema svona hundraðþjalasmiður": Guðmundur Gíslason í yfirheyrslu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. sep 2015 09:06Uppfært 04. sep 2015 09:07

Guðmundur R. Gíslason webGuðmundur Rafnkell Gíslason er í yfirheyrslu vikunnar, en eins og Austurfrétt greindi frá hér, mun hann taka við starfi Freysteins Bjarnasonar sem framkvæmdastjóri Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) í október. Guðmundur hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Sjónaráss síðan 2008.


Guðmundur segir nýja starfið leggjast gríðarlega vel í sig.

„SÚN rekur flottar verslanir bæði í Neskaupstað og á Reyðarfirði. Nú er ÁTVR á leiðinni í annað húsnæði í Neskaupstað og þá rýmkast um húsnæðið í Fjarðarsporti og ýmislegt hægt að gera.

SÚN er merkilegt félag og mér finnst heiður að hafa verið boðið starfið. Gísli Bergs, afi minn, var einn af stofnendum SÚN og ég held að öllum Norðfirðingum þyki vænt um félagið, eins og mér – enda hefur það staðið sig vel í að ráðstafa arðgreiðsum af hlutabréfunum í Síldarvinnslunni inn í samfélagið.

Ég hef ýmsar hugmyndir um samfélagsverkefni sem ég vona að verði að veruleika, en fyrst verð ég þó að læra hjá Freysteini og það verður ekki auðvelt að feta í fótspor hans. Hann hefur staðið sig mjög vel ásamt stjórn félagsins þar sem Guðmundur heitinn Bjarnason var formaður."


Fullt nafn: Guðmundur Rafnkell Gíslason.

Aldur: 45 ára.

Maki: Guðrún Smáradóttir, danskennari.

Börn: María Bóel 14 ára og Eyrún Björg 20 ára.

Vínill eða geisladiskur? Þessa dagana eru það vínilplötur.

Hver er þinn helsti kostur? Ætli það sé ekki hversu lausnamiðaður ég er. Ég sé fá vandamál, bara verkefni. Svo er ég heiðarlegur og mikill mannvinur.

Mesta undur veraldar? Íslenska verðtryggingin.

Hver er þinn helsti ókostur? Get verið utan við mig og man stundum ekkert hvert ég er að fara. Sennilega vottur af athyglisbresti með dassi af dagdraumum.

Syngur þú í sturtu? Ég er voða mikið að syngja, tralla eða blístra og ef ég er í góðu skapi þá syng ég í sturtu.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Foreldrar mínir. Svo eru bara margir sem ég lít upp til og reyni að tileinka mér það besta í fari annarra til að verða örlítið betri sjálfur.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? John Lennon.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum, hvað væri það? Ást og friður myndu leysa öll vandamál.

Draumastaður í heiminum? Engin sérstakur sem mig dreymir um, en Jamaika og Kúba koma upp í hugann.

Hvað vermir þrjú efstu sætin á þínum „bucket list"? Er ekki með þannig lista en set mér þess í stað markmið svona einu sinni á ári.

Duldir hæfileikar? Er nokkuð lunkinn að gera við hluti og hendi engu fyrr en ég er búinn að prófa að laga sjálfur og stundum tekst það. Þetta hef ég frá pabba sem var þúsundþjalasmiður, ég er nú samt ekki nema svona hundraðþjalasmiður.

Mesta afrek? Tja, það er erfitt að segja. Ætli Barðsneshlaup og maraþon séu ekki toppurinn á íþróttaferlinum. Símon er lasinn í fyrsta sæti vinsældarlista Rásar tvö, þegar ég var 17 ára, er sennilega toppurinn á tónlistarferlinum! Annars er ég stoltastur af því að hafa alið upp með konu minni tvær yndislegar dætur sem ég er endalaust stoltur af.

Ertu nammigrís? Nei, hætti að borða nammi og sætindi fyrir svona 2 árum, smakka stundum sætindi en læt þau að mestu eiga sig.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Atlavík, þar kyssti ég konuna mín fyrst og þaðan á ég svo frábærar minningar með félögum mínum í SúEllen. Draumurinn er að syngja aftur á sviði í Atlavík. Það gæti verið atriði á fötulistann (Bucket list).

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika.

Settir þú þér áramótaheit? Nei, læt markmiðin mín duga.

Besta bíómynd allra tíma? Rokk í Reykjavík eftir Friðrik Þór Friðriksson.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Mánudagar, þá byrjar allt upp á nýtt og við fáum enn eitt tækfifæri til að gera betur en í síðustu viku.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Á föstudagskvöld er óvissuferð hjá Sjónarási, fyrirtækinu sem ég hef unnið hjá í átta ár. Þar á ég marga góða vini sem verður erfitt að kveðja eftir mánuð. Á laugardagskvöld ætlum við svo að fagna Elvari Jónssyni fertugum. Elvar er sem kunnugt er leiðtogi Fjarðalistans líkt og ég var í eina tíð. Svo erum við Gunna að dytta að húsinu okkar svo kannski málum við smávegis líka, ef hann hangir þurr.