Framkvæmdastjóraskipti hjá Samvinnufélagi útgerðarmanna í Neskaupstað
Hinn 15. október nk. mun Freysteinn Bjarnason láta af störfum framkvæmdastjóra Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað sökum aldurs en hann hefur gegnt starfinu frá árinu 2005. Við starfinu tekur Guðmundur Rafnkell Gíslason sem að undanförnu hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Sjónaráss.Guðmundur Rafnkell er 45 ára að aldri og búsettur í Neskaupstað ásamt eiginkonu og tveimur dætrum. Hann lauk B.ed.-prófi frá Háskólanum á Akureyri árið 1997 og hefur auk þess lokið fjölmörgum námskeiðum á sviði stjórnunar-, öryggis- og mannauðsmála.
Guðmundur annaðist rekstur Hótels Egilsbúðar í Neskaupstað á árunum 1997-2005 og var mannauðsstjóri hjá ESS Support Services á Reyðarfirði á árunum 2005-2007. Frá árinu 2008 hefur hann síðan gegnt starfi framkvæmdastjóra Sjónaráss.
Guðmundur hefur mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum en hann átti sæti í bæjarstjórn Neskaupstaðar og síðar Fjarðabyggðar í 15 ár og var forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar á árunum 2006-2010. Hann sat í stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á árunum 2004-2010 og Byggðastofnunar á árunum 2011-2014. Frá unga aldri hefur Guðmundur tekið virkan þátt í félagsstörfum og tónlistarlífi.
Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað var stofnað árið 1932 og nú rekur félagið tvær verslanir, Fjarðasport í Neskaupstað og Veiðifluguna á Reyðarfirði, auk þess sem það hefur umboð fyrir Tryggingamiðstöðina og annast verkefni í samstarfi við ÁTVR. Þá hefur félagið sinnt framkvæmdastjórn fyrir Olíusamlag útvegsmanna í Neskaupstað. Samvinnufélagið á eignarhlut í Síldarvinnslunni hf. og ráðstafar drjúgum hluta árlegs arðs af þeirri eign til menningar- og félagsmála innan fjallahrings Norðfjarðar.