Aðalsteinn og Ólavía hlutu viðurkenningu Framfarafélags Fljótsdalshéraðs

Hjónin Aðalsteinn Ingi Jónsson og Ólavía Sigmarsdóttir, jafnan kennd við Klaustursel á Jökuldal, hlutu nýverið viðurkenningu Framfarafélags Fljótsdalshéraðs „Frumkvæði til framfara“ sem veitt var á aðalfundi félagsins fyrir skemmstu.

Viðurkenninguna fá þau fyrir atvinnuuppbyggingu í sveit með landbúnaðar- og menningartengdri ferðaþjónustu, skapandi handverki og hreindýrasetri á Skjöldólfsstöðum.

Í umsögn segir að hjónin séu bæði dugnaðarforkar, hugmyndarík og samhent í búskapnum hvort sem í hlut hafi átt hefðbundin sauðfjárrækt, heimilisdýragarður, myndarlegur veitinga- og hótelrekstur í gamla skólahúsnæðinu á Skjöldólfsstöðum og leiðsögn á hreindýraveiðum eða nýting afurða dýranna en Ólavía er landsþekkt fyrir hannyrðir úr hreindýraskinni.

Þá hefur Aðalsteinn verið virkur í félagsmálum bænda, meðal annars sem formaður Búnaðarsambands Austurlands og síðar formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.

Dómnefnd skipuðu Vigfús Ingvar Ingvarsson, Guðfinna Harpa Árnadóttir og Ágúst Arnórsson, útibússtjóri Landsbankans á Egilsstöðum sem er styrktaraðili viðurkenningarinnar.

Aðalsteinn með viðurkenninguna ásamt Þórarni Lárussyni, formanni félagsins og Margréti Árnadóttir, gjaldkera.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.