Skip to main content
Jólabækurnar farnar að prýða hillur Bókasafns Héraðsbúa og með þeim auðvelt að detta stundarkorn inn í aðra heima í ró og næði. Mynd: Aðsend

Eðli máls samkvæmt fer róvember rólega af stað í Bókasafni Héraðsbúa

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. nóv 2025 14:57Uppfært 19. nóv 2025 15:02

Í tiltölulega hröðu og oft stressfullu íslensku þjóðfélagi í aðdraganda jólahátíðarinnar getur verið andlega gott að ná friðsælum stundum inn á milli en það getur verið flóknara að gera en segja. Hjá Bókasafni Héraðsbúa liðka menn fyrir með stundum sem kallast róvember.

Velflestir þekkja að verslanir margar freista orðið fólks með ýmis konar gylliboðum í nóvember áður en alvöru auglýsingaflóð hvelfist yfir í aðdraganda jóla í desember með tilheyrandi amstri og áhyggjum fyrir marga.

Það er ástæða þess að ýmis bókasöfn landsins auglýsa frí frá slíku áreiti með átaki sem kallast róvember í stað nóvember og á að veita áhugasömum truflanalausa stund með góða bók í hönd í notalegu umhverfi.

Í gær var fyrsta kvöldið af tveimur alls undir því heiti hjá bókasafni Héraðsbúa en þá bauðst fullorðnum einstaklingum tækifæri til að heimsækja safnið, grípa góða bók og eiga stund í friði og ró frameftir kvöldi til klukkan 22.

Kolbrún Erla Pétursdóttir, forstöðumaður bókasafnsins, segir alls ekki vanþörf á góðum stað og stund til að kasta mæðinni, hvíla lúin bein og njóta góðra bóka stundarkorn og það sé hugmyndin með róvemberdögunum.

„Við vorum með fyrsta róvemberkvöldið í gær sem tókst vel. Það voru allnokkrir einstaklingar sem nýttu sér tækifærið enda tímasetningin góð með tilliti til að nú er allt að fyllast hjá okkur af nýju jólabókunum og nóg um að velja. Við verðum með annað svoleiðis kvöld á þriðjudag eftir viku þar sem allt mun ganga út á að fólk geti komið til okkar og átt friðsæla og ljúfa stund án áreitis afsláttadaga eða jólaundirbúnings. Þá er safnið opið lengur en venjulega eða til klukkan 22 svo góður tími gefst fyrir áhugasama. Hingað allir velkomnir sem slíkt vilja upplifa.“