Æfingin kemur úr sólarkaffi Leiknis
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. jún 2019 16:54 • Uppfært 29. jún 2019 17:02
Sigrún Steindóttir frá Dölum í Fáskrúðsfirði fór í dag með sigur af hólmi í keppni í pönnukökubakstri á Landsmóti UMFÍ fyrir 50 ára og eldri sem fram fer í Neskaupstað um helgina.
„Ég nálgaðist keppnina eins og ég væri að baka í eldhúsinu heima hjá mér, nema ég var aðeins að flýta mér,“ segir Sigrún.
„Ég er búin að baka ofan í marga um dagana og hef þróað tækni mína í gegnum árin. Við skiptumst á að baka fyrir sólarkaffi Leiknis en ég hef aldrei keppt í pönnukökubakstri.“
Að ýmsu er að hyggja í keppni í pönnukökubakstri. Keppendur hafa 20 mínútur til að gera deigið og baka 20 pönnukökur. Tíu á að skila upprúlluðum með sykru og tíu brotnum horn í horn.
Þá taka dómarar tillit til umgengi á vinnusvæði meðan bakað er, frágangi á svæðinu og á pönnukökunum á fati, vinnubrögðum, útliti pönnukakanna þannig þær séu svipaðar í útliti og ekki brenndar og síðast, en ekki síst, bragðgæðum.
„Þetta er ekki bara hraðinn. Hitinn á pönnunni hefur líka mikið að segja. Við vorum með ágætar hellur hér og frábæra aðstöðu,“ segir Sigrún.
Fáskrúðsfirðingar voru sigursælir í pönnukökubakstrinum þar sem Ingigerður Jónsdóttir frá Eyri í Fáskrúðsfirði fékk bronsverðlaun. Í öðru sæti varð Ingibjörg Helga Guðmundsdóttir frá Selfossi.