Ætlaði að verða atvinnumaður í fótbolta eins og Ásgeir Sigurvinsson
Í gærkvöldi hófst Bræðslan á Borgarfirði í fjórtánda skipti. Annar bræðslustjórinn, Áskell Heiðar Ásgeirsson, er í yfirheyrslu vikunnar.
Bræðslan hefur verið fádæma vinsæl undanfarin ár, en hvernig hófst þetta allt saman? „Við sem stóðum að Kjarvalsstofu á Borgarfirði bjuggum til litla hátíðardagskrá í júlí 2005 til að minnast þess að 120 ár voru frá fæðingu hans. Við enduðum þá dagskrá með tónleikum sem við héldum í Bræðslunni sem þá hafði lítið verið notuð sem menningarhús. Ég fékk Emilíönu Torrini til að spila á þessum tónleikum og Magna bróður til að hita upp og úr varð yndisleg kvöldstund.
Strax eftir þessa tónleika var farið að tala um að gera þetta aftur og síðan hefur þetta undið upp á sig. Árið 2008 má svo segja að þetta hafi náð þeirri stærð sem hátíðin hefur verið í síðan. Við sáum alls ekki fyrir hvað þetta yrði stórt allt saman en þetta hefur verið ánægjulegt ferðalag,“ segir Áskell Heiðar, sem hefur staðið fyrir hátíðinni síðan ásamt Magna bróður sínum.
„Bræðslan er byggð ofan á góðan grunn“
Hvað telur Áskell Heiðar að Bræðslan hafi gert fyrir Borgarfjörð? „Það er ekki gott að segja, en ég veit þó að hún hefur dregið hingað nokkuð af fólki, mögulega fólki sem hefði ekki komið annars. Svo veit ég líka að hver gestur skilur eftir sig einhverja tugi þúsunda króna í verslun og þjónustu á staðnum sem er gott. Þá held ég að hátíðin og allt annað sem gert er hér á sumrin í tónleikahaldi hafi gert það skemmtilegra að búa hérna, að minnsta kosti yfir sumarið. Hinsvegar má ekki gleyma því í þessari umræðu að Bræðslan er byggð ofan á góðan grunn í tónleikahaldi og viðburðum á Borgarfirði, til dæmis Álfaborgarsjéns og fleira gott sem frumkvöðlar í ferðaþjónustu hér stóðu fyrir.“
Stefna þeir bræður á Bræðslu um ókomna tíð? „Það er ómögulegt að segja en Borgfirðingar munu hinsvegar örugglega halda áfram að hampa lifandi tónlist um ókomna tíð eins og þeir hafa gert í gegnum árin.“
Fullt nafn: Áskell Heiðar Ásgeirsson.
Aldur: 45.
Starf: Sjálfstætt starfandi viðburðaskipuleggjandi og háskólakennari.
Maki: Vala Bára Valsdóttir.
Börn: Bergrún Sóla (21) Malen (19) Heiðdís Pála (10) og Snæfríður sem er að verða átta ára.
Hvar og hvað er „heima“ fyrir þér? Er búinn að búa 27 ár með hléum á Sauðárkróki þannig að þar er vissulega heima, en Borgarfjörður eystra er líka alltaf heima fyrir mig.
Fyrsta æskuminning? Man eitthvað örlítið eftir mér á Ósi þar sem ég bjó til 7 ára aldurs en fyrsta skýra minningin er síðan frá deginum sem við fluttum í Brekkubæ, 20 mars 1980.
Eru álfar á Borgarfirði? Örugglega.
Hver er þinn helsti kostur? Gengur ágætlega að hafa yfirsýn yfir stærri verkefni.
Hver er þinn helsti ókostur? Fljótfær.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Foreldrar mínir.
Hvað er rómantík? Einstaklingsbundin.
Hvað ertu með í vösunum? Ekkert, ég er í stuttbuxum sem hafa verið staðalbúnaður á Borgarfirði í sumar.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítill? Atvinnumaður í fótbolta eins og Ásgeir Sigurvinsson Borgfirðingur.
Draumastaður í heiminum? Á eftir að skoða mjög mikið af honum, t.d. píramídana í Egyptalandi.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Traust.
Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Föstudagur, öll helgin framundan.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Brjóta saman sokka, þeir passa aldrei saman.
Topp þrjú á þínum „Bucket list“? Halda Bræðslu – ekkert annað í augnablikinu.
Duldir hæfileikar? Hæfileikarnir í bassaleik eru bæði litlir og duldir.
Mesta afrek? Börnin mín og að hafa náð í mína góðu konu.
Undarlegasti matur sem þú hefur borðað? Krókódíll.
Hver er sérstaða Borgarfjarðar? Náttúrufegurð og besta vatn í heimi.
Hljómsveitin Stjórnin á sérsakan stað hjá þér, af hverju? Ég elti hana töluvert á sveitaböllin á unglingsárunum, góða minningar.
Hvernig verður helgin hjá þér? Erilsöm en örugglega ánægjuleg þar sem ég mun hitta fullt af skemmtilegu fólki.